Í kring um sex­tíu starfs­menn Land­spítala sem var boðið að mæta í bólu­setningu í gær og í dag hafa af­þakkað boðið. Hjúkrunar­fræðingarnir Hildur Helga­dóttir og Vig­dís Hall­gríms­dóttir, sem hafa um­sjón með bólu­setningunum, segja að lang­al­gengustu á­stæður starfs­manna fyrir að mæta ekki í bólu­setningu séu þær að þeir séu barns­hafandi, með barn á brjósti eða ein­fald­lega ekki í bænum.

„Sam­kvæmt fylgi­seðli skal að­eins í­huga gjöf bólu­efnis á með­göngu ef hugsan­legir kostir vega þyngra en hugsan­leg á­hætta fyrir móður og fóstur. Það er mælst til þess að konur ráð­færi sig við sinn lækni, þar sem með­göngu­lengd og á­hætta er metin. Það sama á við um konur með börn á brjósti,“ segir Hildur spurð hvort mælt sé gegn því að ó­léttar konur séu bólu­settar. Á heima­síðu land­læknis segir einnig að enn hafi ekki verið tekin á­kvörðun um bólu­setningu þungaðra kvenna. Hins vegar sé ó­hætt að bólu­setja konur með barn á brjósti.

Hildur Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítala.
Mynd/Aðsend

Bólusetja hraðar í dag

Bólu­setningar fyrstu skammta sem Ís­land fékk frá Pfizer hófust í gær og er gert ráð fyrir að þeim ljúki í dag. Land­spítalinn mun bólu­setja 770 starfs­menn sína í fram­línu­störfum og 120 sjúk­linga á öldrunar­deildum sínum. Í gær tókst að bólu­setja 319 starfs­menn og 53 sjúk­linga og í dag er því lagt upp með að klára bólu­setningar á 451 starfs­manni og 67 sjúk­lingum. Hildur og Vig­dís gera ráð fyrir að ná því fyrir klukkan 19 í kvöld.

Starfs­menn spítalans sem eru í fyrsta for­gangs­hópi fyrir bólu­setningar hafa fengið boð með SMS-i í bólu­setningarnar. Hildur og Vig­dís taka það fram að hver einasti skammtur verði nýttur og þegar þessir um 60 starfs­menn höfnuðu boði hafi aðrir fengið boð í staðinn. „Þetta hefur gengið mjög vel og engin vanda­mál komið upp hjá okkur,“ segir Vig­dís.

„Við fórum að­eins hægar í þetta í gær og vorum dá­lítið var­færin á meðan við vorum að byrja. Við vorum til dæmis að prófa þetta nýja tölvu­kerfi sem skráir hvern og einn sem fær bólu­setningu inn í bólu­setningar­grunn sótt­varna­læknis. Það gekk allt mjög vel og við gerum ráð fyrir að gera þetta hraðar í dag,“ segir hún.

Vig­dís Hall­gríms­dóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítala.
Fréttablaðið/Aðsend