Í kring um sextíu starfsmenn Landspítala sem var boðið að mæta í bólusetningu í gær og í dag hafa afþakkað boðið. Hjúkrunarfræðingarnir Hildur Helgadóttir og Vigdís Hallgrímsdóttir, sem hafa umsjón með bólusetningunum, segja að langalgengustu ástæður starfsmanna fyrir að mæta ekki í bólusetningu séu þær að þeir séu barnshafandi, með barn á brjósti eða einfaldlega ekki í bænum.
„Samkvæmt fylgiseðli skal aðeins íhuga gjöf bóluefnis á meðgöngu ef hugsanlegir kostir vega þyngra en hugsanleg áhætta fyrir móður og fóstur. Það er mælst til þess að konur ráðfæri sig við sinn lækni, þar sem meðgöngulengd og áhætta er metin. Það sama á við um konur með börn á brjósti,“ segir Hildur spurð hvort mælt sé gegn því að óléttar konur séu bólusettar. Á heimasíðu landlæknis segir einnig að enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um bólusetningu þungaðra kvenna. Hins vegar sé óhætt að bólusetja konur með barn á brjósti.

Bólusetja hraðar í dag
Bólusetningar fyrstu skammta sem Ísland fékk frá Pfizer hófust í gær og er gert ráð fyrir að þeim ljúki í dag. Landspítalinn mun bólusetja 770 starfsmenn sína í framlínustörfum og 120 sjúklinga á öldrunardeildum sínum. Í gær tókst að bólusetja 319 starfsmenn og 53 sjúklinga og í dag er því lagt upp með að klára bólusetningar á 451 starfsmanni og 67 sjúklingum. Hildur og Vigdís gera ráð fyrir að ná því fyrir klukkan 19 í kvöld.
Starfsmenn spítalans sem eru í fyrsta forgangshópi fyrir bólusetningar hafa fengið boð með SMS-i í bólusetningarnar. Hildur og Vigdís taka það fram að hver einasti skammtur verði nýttur og þegar þessir um 60 starfsmenn höfnuðu boði hafi aðrir fengið boð í staðinn. „Þetta hefur gengið mjög vel og engin vandamál komið upp hjá okkur,“ segir Vigdís.
„Við fórum aðeins hægar í þetta í gær og vorum dálítið varfærin á meðan við vorum að byrja. Við vorum til dæmis að prófa þetta nýja tölvukerfi sem skráir hvern og einn sem fær bólusetningu inn í bólusetningargrunn sóttvarnalæknis. Það gekk allt mjög vel og við gerum ráð fyrir að gera þetta hraðar í dag,“ segir hún.
