Heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2021 var samkvæmt skráðum gögnum sem bárust til Hafrannsóknastofnunar 36.461 laxar. Það er 8.663 löxum, eða um nítján prósent minni veiði en árið 2020.
Ef litið er til veiddra laxa árið 2021 þá var 19.589 löxum sleppt, en heildarfjöldi landaðra laxa var 16.872. Af stangveiddum löxum voru 28.705 laxar með eins árs sjávardvöl og 7.756 laxar með tveggja ára sjávardvöl eða lengri. Alls var þyngd landaðra laxa í stangveiði 46.832 kíló.
Þá voru skráðir 339 hnúðlaxar í stang- og netaveiði í fyrra, en það hafa aldrei veiðst fleiri hnúðlaxar í ám hér á landi.
Náttúrulegar ástæður fyrir minni veiði
„Það er samdráttur milli ára,“ segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofu. Hann segir að útlitið fyrir veiðiárið sé gott, en að það stefni ekki í neina metveiði.
„Þar sem að við erum með teljara í ám og getum talið annars vegar fiska sem koma í árna og síðan það sem skráð er í veiði, þá eru mjög sterk tengsl þar á milli. Veiðiálagið í fjölda stangadaga er mjög svipað á milli ára, stangafjöldinn er sá sami,“ segir Guðni.
Hann segir að náttúrulegar ástæður séu fyrir minni veiði 2021 en árið áður.
„Árið 2019 dró verulega úr vexti seyða í ánum, þannig fjöldi þeirra seyða sem gekk út árið 2019 var minni heldur en búist var við. Veiðin í fyrra var minni af þeim sökum að það voru færri seyði að ganga út úr ánum,“ segir Guðni.
„Það sem kom fram í minni veiði árið 2021 var að þeir árgangar sem hefðu átt að ganga út árið 2020, þeir voru að ganga út 2021. Það gefur fyrirheit um það að við fáum heldur betri göngur og meiri veiði núna á þessu ári,“ segir Guðni.
Skýrsluna í heild má lesa hér.