Heildar­fjöldi stang­veiddra laxa árið 2021 var sam­kvæmt skráðum gögnum sem bárust til Haf­rann­sókna­stofnunar 36.461 laxar. Það er 8.663 löxum, eða um ní­tján prósent minni veiði en árið 2020.

Ef litið er til veiddra laxa árið 2021 þá var 19.589 löxum sleppt, en heildar­fjöldi landaðra laxa var 16.872. Af stang­veiddum löxum voru 28.705 laxar með eins árs sjávar­dvöl og 7.756 laxar með tveggja ára sjávar­dvöl eða lengri. Alls var þyngd landaðra laxa í stang­veiði 46.832 kíló.

Þá voru skráðir 339 hnúðlaxar í stang- og netaveiði í fyrra, en það hafa aldrei veiðst fleiri hnúðlaxar í ám hér á landi.

Náttúrulegar ástæður fyrir minni veiði

„Það er sam­dráttur milli ára,“ segir Guðni Guð­bergs­son, sviðs­stjóri hjá Haf­rann­sóknar­stofu. Hann segir að út­litið fyrir veiði­árið sé gott, en að það stefni ekki í neina met­veiði.

„Þar sem að við erum með teljara í ám og getum talið annars vegar fiska sem koma í árna og síðan það sem skráð er í veiði, þá eru mjög sterk tengsl þar á milli. Veiði­á­lagið í fjölda stanga­daga er mjög svipað á milli ára, stanga­fjöldinn er sá sami,“ segir Guðni.

Hann segir að náttúru­legar á­stæður séu fyrir minni veiði 2021 en árið áður.

„Árið 2019 dró veru­lega úr vexti seyða í ánum, þannig fjöldi þeirra seyða sem gekk út árið 2019 var minni heldur en búist var við. Veiðin í fyrra var minni af þeim sökum að það voru færri seyði að ganga út úr ánum,“ segir Guðni.

„Það sem kom fram í minni veiði árið 2021 var að þeir ár­gangar sem hefðu átt að ganga út árið 2020, þeir voru að ganga út 2021. Það gefur fyrir­heit um það að við fáum heldur betri göngur og meiri veiði núna á þessu ári,“ segir Guðni.

Skýrsluna í heild má lesa hér.