Tæplega hundrað hjúkrunarfræðinemar mæta á morgun í húsnæði Hjúkrunarfræðideildar til að taka próf í lyfjaútreikningi í barnahjúkrun.

Nemendur hafa áhyggjur af smithættu vegna prófsins en fjölmargir hjúkrunarnemar starfa á mismunandi deildum á heilbrigðisstofnunum landsins.

Landspítalinn hefur nú lýst yfir neyðarstigi í fyrsta sinn í kórónaveirufaraldrinum. Alma D. Möller ítrekaði í dag mikilvægi þess að fleiri skrái sig á bakvarðarsveitir vegna álags á Landspítalanum í kjölfar hópsmits á Landakoti.

Guðrún Kristjánsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði og forstöðumaður fræðasviðs barnahjúkrunar segir nemendur ekki þurfa að hafa áhyggjur. Aðspurð hvort hægt sé að taka prófið á netinu segir Guðrún að það sé ekki hægt þar sem prófið sé klínískt.

Ekki hægt að hafa netpróf

„Um það bil 20 nemendur verða í hverju hólfi. Öllum reglum verður fylgt og nemendur mæta á mismunandi tíma,“ segir Guðrún í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta er sérpróf sem er haldið svo fólk geti farið í klíníska þjálfun. Það er mjög erfitt að hafa marktækt netpróf í þessu. Þetta er klassískt alþjóðlegt verklag að prófa nemendur svona og svo er allt of íþyngjandi að hafa netpróf í þessu fagi,“ segir Guðrún og bætir við:

„Það ætti ekki að vera áhyggjuefni fyrir nemendur að mæta í þetta próf. Við erum mjög meðvituð um þetta hér í háskólanum og vitum að það er smá kvíði. Það er spritt á staðnum og allir verða með grímur svo ég tel að nemendur ættu ekki að hafa áhyggjur.“

Nemandi í hjúkrun sagði í færslu á Facebook í dag að prófið gildi núll prósent. Aðspurð um hvort prófið sé nauðsynlegt segir Guðrún: „Já, þetta er próf sem er tekið upp á tíu. Þú verður að ná tíu af tíu mögulegum þannig að þetta er svona öryggispróf til þess að nemendur geta sinnt klínískri meðferð.“