Rétt tæpur helmingur fólks sem er undir fimm­tugt hefur aldrei átt í­búðar­hús­næði. Þetta kemur fram í gögnum úr svari Sigurðar Inga Jóhanns­sonar, inn­viða­ráð­herra, við spurningu Ást­hildar Lóu Þórs­dóttur, þing­manni Flokks fólksins um ein­stak­linga sem ekki eiga í­búða­rhús­næði.

Ást­hildur Lóa spurði Sigurð Inga: „Hversu margir ein­staklingar, 18 ára og eldri, hafa aldrei verið eig­endur að í­búðar­hús­næði?“

Í svarinu notast Sigurður Ingi við töflu sem sýnir fjölda ein­stak­linga, 18 ára og eldri, sem allt frá á­lagningu árið 1993 fram til á­lagningar 2022, hafa aldrei talið fram fast­eignir, ýmist sjálfir eða á­samt maka á skatt­fram­tali.

Í svörum Sigurðar Inga kemur fram að 32 prósent ein­stak­linga hafa aldrei átt í­búðar­hús­næði. Þegar það er greint eftir kynjum er hlut­fallið ó­líkt, um 36 prósent karla hafa aldrei átt í­búðar­hús­næði, saman­borið við um 29 prósent kvenna.

Þegar gögnin eru skoðuð frekar má sjá að einungis 48,8 prósent ein­stak­linga á aldurs­bilinu 18 til 49 ára hafa aldrei átt í­búðar­hús­næði. Saman­borið við 9,1 prósent fólks á aldurs­bilinu 50 ára og eldri.

Þegar skoðað er eftir aldurshópum má sjá að yngsti hópurinn, þeir sem eru yngri en 20 ára, inni­heldur flesta sem aldrei hafa átt í­búð­hús­næði, eða um 98,4 prósent. Einungis 147 ein­staklingar innan þessa aldurs­hóps hafa átt í­búða­rhús­næði.

Hlut­fall þeirra sem aldrei hafa átt í­búðar­hús­næði fer lækkandi því eldri sem aldurshópurinn er. Því eldri sem ein­stak­lingurinn er, því lík­legri er hann að hafa átt íbúð.

Lægst var hlut­fall þeirra sem aldrei hafa átt í­búða­rhús­næði, í hæsta aldurs­flokknum eða um 5,3 prósent.

Mestur var munurinn á körlum og konum á aldrinum 30 til 29 ára. 46 prósent karla höfðu aldrei átt íbúð, saman­borið við 33,3 prósent kvenna. Það er 12,7 prósentu­stiga munur.