Með því að kaupa rafbíl, í stað bíls sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti, dregur fólk gífurlega mikið úr kolefnislosun sinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókn Orku náttúrunnar á kolefnisfótspori rafbíla sem félagið kynnti á fundi sínum í morgun.

Í rannsókninni kemur meðal annars fram að heildarlosun rafbíls, frá framleiðslu og að 220 þúsund kílómetra akstri við íslenskar aðstæður er 4-4,5 sinnum minni en heildarlosun bíla sem nota jarðefnaeldsneyti. Að sögn Berglindar Ránar Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, er þetta í fyrsta skipti sem tekið er sérstakt tillit til íslenskra aðstæðna í slíkri rannsókn.

„Við tókum þarna allan lífsferil ólíkra gerða bíla og fundum gögn sem sýna hve mikil losun koltvísýrings á sér stað við allra framleiðslu bílanna. Svo voru íslenskar aðstæður reiknaðar inn í þetta sem hefur ekki verið gert áður,“ segir Berglind.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.

Þá kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar að gífurlegu máli skipti að yfirgnæfandi hluti íslensks rafmagns sé framleitt á umhverfisvænan hátt. Því sé akstur rafbíla á landinu hreinasti kostur sem völ er á. „Þessi rannsókn er ekki síst hugsuð til að hjálpa fólki að átta sig á því hvað þessi kostur er mikið umhverfisvænni,“ segir Berglind þá.

Hún bendir á að um 200.000 bílar séu í notkun á landinu en þar af eru einungis 3.000 rafbílar. „Flestir eru því að fara að kaupa sér rafbíl í fyrsta skipti og fólk spyr sig þá eðlilega: Er ég í alvörunni að hafa jákvæð áhrif á losun vegna míns lífsstíls með því að kaupa rafbíl? Og þessar niðurstöður ættu að hjálpa því fólki.“

Berglind vill þó að lokum benda á að best sé að ganga, hjóla eða taka strætó. „En ef þú ætlar að keyra bíl þá er mun betra, með tilliti til losunar koltvísýrings, að keyra rafbíl.“