„Við erum með átakshelgi núna helgina eftir hvítasunnu. Þá erum við með tvo átaksdaga til að reyna að ná niður biðlistum. Einnig förum við með skurðstofur í „sumarfasa“, aðeins seinna en áformað var,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Fréttablaðið hefur óskað eftir svörum frá heilbrigðisráðherra um hvernig tekið verður á biðlistum frá síðasta föstudegi, en fékk þau svör á miðvikudaginn að ráðherra muni ekki tjá sig um málið á þessu stigi.

Meðalbiðtími eftir aðgerð er nú um fjórir mánuðir en lengsti biðtíminn er eftir mjaðmaskiptaaðgerð sem er um sex og hálfur mánuður. „Það má búast við því að það lengist eins og annað en við viljum forgangsraða og vinna á þeim biðlistum sem eru lengstir,“ segir Páll spurður um hvernig staðan á mjaðmaskiptaaðgerðum gæti litið út á næstu mánuðum.

Berglind Elvarsdóttir, verkefnastjóri hjá alþjóðadeild Sjúkratrygginga Íslands, segir það með öllu óljóst hvenær hægt verði að senda fólk til útlanda í aðgerðir á ný. Biðlistar eru til staðar í öllum öðrum löndum líka.

Páll segir það vera ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins hvort opna eigi tímabundið fyrir möguleikann á að leyfa sjúklingum að fara á einkareknar stofur hér heima í stað þess að senda þá til Svíþjóðar eins og gert hefur verið.

„Ég held að það sé í sjálfu sér á forsvari ráðuneytisins að gera áætlanir um hvernig brugðist verður við biðlistum. Það stendur ekki á okkur að taka þátt í því að finna lausnir eftir því sem við best getum,“ segir Páll og bætir við að hans fólk sé í samskiptum við ráðuneytið um lausn þessara mála.

Hjálmar Þorsteinsson, bæklunarskurðlæknir hjá Klíníkinni, segir Klíníkina tilbúna að aðstoða við að stytta bið eftir biðlistum.

„Sjúklingar hafa rétt á aðgerð innan 90 daga, það eru bara réttindi sem Alþingi hefur skapað. Ríkið hefur fram til þessa neytt sjúkling sem ætlar að leita réttar síns til þess að flýja land og leita lækninga erlendis. Sú leið er bara algjörlega lokuð núna og hvernig ríkið hefur hugsað sér að uppfylla réttindi sjúklinga á þessum tíma er algjörlega óljóst. Ég er búinn að senda nokkur erindi fyrir mína skjólstæðinga og við höfum ekki fengið svar um hvernig þau hafa hugsað sér að tryggja þetta,“ segir Hjálmar.

Hann segir að vanalega séu svör frá Sjúkratryggingum Íslands stöðluð um að ekki megi framkvæma liðskiptaaðgerðir hérlendis en honum er heimilt að fara utan með sína sjúklinga. Engin slík svör hafa hins vegar borist núna.

Aðspurður segir Hjálmar Klíníkina hafa alla burði og vilja til þess að aðstoða við að stytta biðlistana sé þess óskað. Dagný Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuhússins, tekur í sama streng og segir að Orkuhúsið sé að sjálfsögðu reiðubúið til að hjálpa til ef sé þess óskað. „Allir sem eru í þessu eru tilbúnir að hjálpa til. Alveg eins og þegar við slógumst við COVID-19 sem harðast. Það er vilji til þess að hjálpa til, það er engin spurning,“ segir Hjálmar.