Áætlað er um fjögur þúsund einstaklingar búi í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, félags - og barnamálaráðherrra, í svari við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri-grænna, sem birtist í dag á vef Alþingis.

Slökkviliðsstjórar á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdu könnun á búsetu einstaklinga í húsnæði árið 2017. Nú sé búið að endurskoða þær upplýsingar með nýlegri vettvangskönnun og ábendingum „og eru þær því ekki nákvæmar.“ Því gætu verið talsvert fleiri eða jafnvel færri sem búa í atvinnuhúsnæði.

Ráðherra segir að einstaklingar og fjölskyldur á leigumarkaði sem ekki eiga kost á að búa annars staðar en í atvinnuhúsnæði ættu að snúa sér til sveitarfélags síns til að leita lausna á húsnæðisvanda sínum.

Ráðherra segir að almennum íbúðum muni fjölga um 1800 á næstu þremur árum.

Auka framboð á húsnæði

Ráðherra bendir á að sambærileg könnun hafi ekki verið framkvæmd annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu að því er hann veit best og því er ekki hægt að vita um landsbyggðina.

Bjarkey Olsen spurði ráðherra hvaða úrræði standi fólki til boða sem ekki eiga kost á viðunandi húsnæði og svaraði ráðherra:

„Aðgengi fólks að viðunandi húsnæði verði best tryggt með því að stuðla að auknu framboði slíks húsnæðis hvort sem er til eignar eða leigu, að húsnæðisstuðningi sé hagað þannig að hann mæti þörfum fólks og með því að efla fræðslu um þau húsnæðisúrræði sem fólki standa til boða,“ segir ráðherra og bendir á að slíkar aðgerðir sé í farvatninu.

1800 almennar íbúðir fyrir 2022

Ráðherra bendir á að ríkið hafi varið tæplega tólf milljörðum króna til stofnframlaga til að styðja við byggingar eða kaup á rúmlega tvö þúsund almennun íbúðum, sem eru ætlaðar einstaklingum og fjölskldum með lágar tekjur.

„Með framboði slíkra íbúða er gagngert stefnt að húsnæðisöryggi fyrir tekjulægri hópa og stuðlað að því að húsnæðiskostnaður þeirra sé í samræmi við greiðslugetu,“ segir ráðherra.

„Ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að auka við fjárveitingu inn í almenna íbúðakerfið sem nemur tveimur milljörðum króna fyrir hvert ár á tímabilinu 2020–2022. Þannig má vænta þess að almennum íbúðum fjölgi um 1800 til viðbótar á næstu þremur árum.“