Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á Austfjörðum. Um eins kílómetra breitt flekaflóð féll í Hólmgerðarfjalli innan við Oddsskarð í dag þegar sól tók að skína á hlíðarnar.
„Þetta var ansi stórt. Þetta var um kílómetri á breidd, það var fyrst talið þetta væri einn og hálfur kílómetri að breidd þ.e. brotstálið,“ segir Óliver Hilmarsson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Snjóflóðið féll um hálf þrjú í dag.
„Það fer þarna úr allri hlíðinni í Hólmgerðarfjalli sem er þarna fyrir ofan Oddskarðsveg sem fer upp í skíðasvæðið. Það fer megnið af þeirri hlíð allri. Það tekur þarna tvo skúra með sér sem voru á skotssvæði þarna,“ segir Ólíver.
Engar mannaferðir voru á svæðinu og skíðasvæðið var lokað.
„Þetta fellur bara því að sólin skín á hlíðinni. Það er ekkert að veðrinu þarna,“ segir Ólíver.
Annað stórt flóð sást í morgun í Harðskafa og fleiri flóð hafa fallið á Austfjörðum síðasta sólarhring. Mikill nýr snjór hefur bæst við síðustu daga í norðlægum áttum og er snjórinn greinilega mjög óstöðugur
Búið að er að setja óvissustig fyrir alla Austfirði. Veður hefur gengið mikið niður og ekki er búist við mikilli snjósöfnun til viðbótar en gert er ráð fyrir dimmum éljum fram eftir kvöldi. Í nótt og á morgun, þriðjudag, er spáð úrkomulitlu veðri. Vegna þess hve snjórinn er óstöðugur eru enn þá líkur á að stór flóð geti fallið. Ekki er talin snjóflóðahætta í byggð eins og er en fylgst er með aðstæðum.