Árið 2020 voru færri nauðganir tilkynntar til lögreglu en árin á undan en kynferðisbrotum gegn börnum fjölgaði. Fjöldi tilkynntra nauðgana fyrstu tíu mánuði ársins 2021 er svipaður og yfir sama tíma 2019. Frá þessu er greint í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra en í dag hefst 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi.
„Við viljum samfélag án kynbundins ofbeldis og kynferðisbrota. Þetta er sú framtíð sem við viljum sjá og verðum að vinna að með markvissum hætti með fræðslu og forvörnum. Þangað til verður lögreglan að gera allt sem í okkar valdi stendur til að veita þolendum sem allra besta vernd, rannsaka kynferðisbrot til hlítar og fæla framtíðarbrotamenn frá því að beita ofbeldi,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, í tilkynningunni.
Fram kemur í samantektinni sem fylgir tilkynningunni að þegar litið er til kynferðisbrota sem tilkynnt eru lögreglu má sjá að fjöldi þeirra hefur árlega verið á bilinu 500 til 600 talsins frá 2016, en fjöldi kynferðisbrotamála á borð lögreglunnar í fyrra, þegar Covid-19 var í hámarki, var sex prósent lægri en þrjú ár á undan.
Nauðgunum fækkaði að meðaltali úr 235 brotum í 161 brot, sem nemur um 31 prósenta fækkun. Hins vegar fjölgaði tilkynningum vegna kynferðisbrota gegn börnum en þau voru 134 talsins árið 2020 en að meðaltali 98 á ári þrjú árin þar á undan, sem er 36 prósent fjölgun.
Þá kemur fram í tilkynningunni að brot gegn kynferðislegri friðhelgi (stafræn brot) voru 43 árið 2021, en ný lög tóku gildi í byrjun árs til að ná yfir stafræn kynferðisbrot sem fela meðal annars í sér öflun, dreifingu eða hótun um dreifingu myndefnis.

560 kynferðisbrot á árinu
Fjöldi tilkynntra kynferðisbrota til lögreglu er um 560 brot það sem af er ári en voru að meðaltali um 480 yfir sama tímabil síðustu þrjú ár á undan. Það er 16 prósent fjölgun.
Lögreglu hefur borist 184 tilkynningar vegna nauðgana en þær voru 143 yfir sama tímabil í fyrra. Að meðaltali er því tilkynnt um 18 nauðganir á mánuði, frá janúar til október en í fyrra, árið 2020, var sambærilegur fjöldi um 14 nauðganir á mánuði frá janúar til október.
Fjöldi tilkynntra nauðgana er því svipaður og árið 2019, en færri tilvik en árið 2018 þegar þær voru óvenju margar eða 230.
Augljóst er að tilkynntum nauðgunum fer almennt fjölgandi samkvæmt gögnum lögreglu. Þær hafa verið yfir 180 á fyrstu 10 mánuðum ársins frá 2017, að undanskildu árinu 2020 þegar þær voru færri.
„Við höfnum því að ofbeldi sé hluti af samfélagi okkar og munum halda áfram að vinna að því að bæta þjónustu lögreglunnar og aðgengi fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda. Það er skýrt markmið hjá lögreglunni að leita allra leiða til að þeir sem verði fyrir kynferðisbroti geti leitað réttar síns með því að tilkynna brotið til lögreglu. Vegna þessa má búast við því að tilkynntum brotum muni halda áfram að fjölga. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega benda á vefgátt 112 um ofbeldi fyrir þolendur, aðstandendur og gerendur með upplýsingum gegn ofbeldi,“ segir Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs ríkislögreglustjóra:

Fleiri brot gegn börnum
Tilkynnt kynferðisbrota gegn börnum voru 119, eða 25 prósent fleiri en síðustu 3 ár á undan. Þegar litið er aftur til 2010 voru brotin þó fleiri árin 2013 og 2014, þegar þau voru óvenju mörg.
Þá kemur fram að aldrei hafi fleiri tilkynningar vegna barnaníðsefnis borist en fyrstu tíu mánuði ársins bárust lögreglunni 34 tilkynningar en um er að ræða bæði myndir og myndskeið.

Grunaðir og brotaþolar
Karlar eru í meirihluta þeirra sem grunaðir eru um kynferðisbrot og eru flestir brotaþolar konur. Það sem af er ári 2021 voru karlar grunaðir í 94 prósent mála og konur í sex prósent mála. Það sem af er ári 2021 voru karlar brotaþolar í 16 prósent mála og konur í 84 prósent mála sem komu á borð lögreglu. Ef eingöngu er litið til nauðgana er hlutfallið 7 prósent karlar og 93 prósent konur meðal brotaþola.
Meðalaldur grunaðra í kynferðisbrotum er hærri en brotaþola yfir tímabilið 2015 til 2021, og var tæplega 34 ár hjá körlum. Meðalaldur brotaþola í kynferðisbrotum er rétt tæp 22 ár hjá konum og tæplega 23 ár hjá körlum.
Fram kemur í tilkynningunni að fjölgun eða fækkun skráðra kynferðisbrota getur farið eftir ýmsum þáttum og að samfélagsumræða, eins og sú sem fylgir #metoo, geti orðið til þess að tilkynningum fjölgar.
Þá segir að einnig séu dæmi fyrir því að berist til lögreglu vegna eins manns, sem brotið hefur gegn mörgum yfir langan tíma og teljast þá brotin til þess árs sem brotið er tilkynnt og skráð í málaskrá lögreglu.