Víða í Reykjavík hefur komið upp mygla eða rakaskemmdir á leikskólum í vetur og í kjölfarið hefur þurft að leggjast í framkvæmdir. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavík er alls um að ræða sjö leikskóla þar sem mygla eða rakaskemmdir hafa greinst í vetur. Í kjölfarið hafa tapast um 88 pláss vegna þess.
Þetta kemur fram í svari Skóla- og frístundasviðs til Fréttablaðsins en spurt var um ýmislegt sem tengist innritun og leikskóla í borginni. Í svarinu kemur enn fremur fram að þegar framkvæmdum lýkur verða plássin víða fleiri.
Eins og til dæmis á Kvistaborg þar sem þeim hefur fækkað um 20 vegna framkvæmda en plássin verða 40 til 50 þegar þeim lýkur. Það sama er að segja um leikskólann Laugasól þar sem börnum mun fækka um 20 í haust en verða 45 til 60 fleiri þegar framkvæmdum lýkur.
Aðrir leikskólar sem um ræðir eru Vesturborg við Hagamel þar sem hafa þegar tapast 18 pláss, Sunnuás við Dyngjuveg þar sem börnum fækkar tímabundið um 30 í haust. Á Ægisborg kom líka upp mygla og voru börn flutt tímabundið en plássum fækkaði ekki en það sama gildir um leikskólana Vinagerði og Garðaborg þar sem um er að ræða tímabundinn flutning vegna viðhalds.
Innrita 14 mánaða
Hvað varðar innritun í leikskóla fyrir næsta haust kemur fram að í vikunni hafi um 1.500 börn í Reykjavík verið búin að fá boð um vistun á leikskóla frá því að innritun þeirra hófst þann 15. mars síðastliðinn. Eins og fyrri ár má gera ráð fyrir því að aðlögun flestra þeirra fari fram í fyrsta lagi í lok ágúst þegar losnar um á leikskólunum þegar elstu börnin fara í grunnskóla.
Í svarinu kemur einnig fram að sem stendur sé verið að vinna með umsóknir barna sem fædd eru í apríl 2021 eða fyrr, og eru því 14 mánaða og eldri. Þá kemur einnig fram að þau börn sem eru 12 mánaða, eða verða 12 mánaða í haust, og eru búin að fá boð eru með samþykktan forgang að leikskóla.
Stríð og heimsfaraldur hafa áhrif
Í viðtali við Helga Grímsson, sviðstjóra sviðsins við mbl.is fyrir um viku síðan kom fram að það ætti að reyna að koma sem flestum börnum að fyrir næsta haust. Spurð hvað verði gert ef að það tekst ekki og hvort eitthvað verði gert fyrir þá foreldra barna sem eiga 12 mánaða börn og gerðu ráð fyrir því að koma börnunum á leikskóla segir að það verði unnið eins langt niður og hægt er fyrir haustið.
En einnig er vísað til þess að samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar um leikskólaþjónustu er miðað við að börn sem orðin eru 18 mánaða 1. september ár hvert fái boð um leikskóladvöl það sama haust.
„Í leikskólum þar sem starfræktar eru skilgreindar ungbarnadeildir er heimilt að innrita yngri börn. Heimildin er háð viðmiðum skóla- og frístundasviðs á hverjum tíma og ræðst af því sem pláss og fjármagn leyfir. Reykjavíkurborg hefur verið í átaki til að fjölga leikskólaplássum um alla borg með það að markmiði að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar. Staðan á byggingamarkaði, stríð, heimsfaraldur og meiri fólksfjölgun en búist var við hafa hægt á uppbyggingu og fjölgun plássa. Því til viðbótar liggja ekki fyrir innritunartölur frá sjálfstætt starfandi leikskólum.“