Stytting vinnuvikunnar mun hafa áhrif á 330 vinnustaði Reykjavíkur og vinnutíma um 10.200 starfsfólks.

Reykjavíkurborg er langstærsti vinnustaðurinn þar sem vinnuvikan verður stytt, fyrst hjá 8500 starfsmönnum á 210 vinnustöðum og þann 1.maí hjá um 1700 vaktavinnufólki borgarinnar sem starfa á um 120 vinnustöðum. Styttingin á ekki að auka kostnað né draga úr þjónustu, segir í svari Reykjavíkurborgar heldur á endurskipulagning á hverjum stað að gera kleift að fækka vinnustundum. Óbreyttur fjöldi starfsmanna á að geta sinnt sömu störfum og nú af sömu gæðum.

Vinnuvikan hjá dagvinnufólki hjá hinum opinbera styttist um allt að fjórar klukkustundir núna um áramótin og fer úr 40 klukkustundum á viku í 36 stundir.

Um þetta samdi BSRB stærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi í kjarasamningum í mars í fyrra.

Vaktavinnufólk þann 1.maí

Hjá vaktavinnufólki tekur vinnutímastyttingin gildi þann 1.maí. Þá styttist vinnuvikan um fjórar stundir að lágmarki og í mesta lagi um átta stundir en styttingin geti verið mest hjá vaktavinnufólki sem gengur þyngstu vaktirnar.

Þannig var fallist var á þá kröfu fjölmargra vaktavinnustétta að 80 prósent vaktavinna jafngildi 100 prósenta dagvinnu, segir á vef BSRB.

Stytting vinnuvikunnar nær því til fjölbreyttra starfsstétta innan borgarinnar m.a. hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, félagsráðgjafa, sálfræðinga, þroskaþjálfa, leikskólakennara, starfsfólks á leikskólum, viðskiptafræðinga, ýmis konar sérfræðinga og stjórnenda