Björgunarsveitir fluttu 39 ferðalanga og um tíu starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækis sem lentu í vandræðum vegna veðurs og ófærðar við Langjökul í gærkvöldi niður af hálendinu í nótt, en það tók langan tíma að ná til þeirra. Í fyrstu var vonað að hægt væri að komast til fólksins um tíu í gærkvöldi, en samkvæmt RÚV komu fyrstu leitarhóparnir til ferðalanganna skömmu fyrir hálf eitt og snjóbílar sem voru sendir á vettvang voru komnir um tvöleytið.

Skyggni var mjög takmarkað og færðin mjög slæm.
MYND/LANDSBJÖRG

Björgunarsveitir fluttu fólkið á snjóbílunum hluta af leiðinni, en starfsfólk fyrirtækisins sem stóð fyrir ferðinni var í síðasta bílnum og ferðalangarnir fóru í fyrstu tveimur bílunum. Björgunarsveitarfólk á jeppum tók á móti fólkinu á miðri leið og það var flutt að Gullfosskaffi, þar sem hlúð var að því áður það var flutt til neðri byggða. Allir hóparnir voru komnir að jeppunum skömmu fyrir þrjú í nótt en upp úr sex í morgun var enn unnið að því að koma fólkinu til byggða.

Samkvæmt Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni hjá Lögreglunni á Suðurlandi, var allt fólkið í skjóli inni í bílum þegar komið var að, en það tók góðan tíma að færa fólkið niður af hálendinu vegna óveðurins, skyggni var mjög lítið og færð mjög þung.

Samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi eru ferðalangarnir og starfsfólkið kalt, blautt og þrekað eftir ferðalagið en enginn er alvarlega slasaður. Þegar fólk er komið til byggða verður það aðstoðað við að komast á hótel sín til gistingar.

Björgunaraðgerðir hafa staðið yfir frá því klukkan 20 í gærkvöldi, en ferðamannahópurinn fór í skipulagða ferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækis um klukkan 13 í gær.

Um 300 manns tók þátt í björgunaraðgerðunum á 57 tækjum við mjög erfiðar aðstæður.