Afföll á laxi sem ræktaður er í sjókvíaeldi hérlendis voru 3.478 tonn á fyrri helmingi ársins ef marka má tölur sem fiskeldisfyrirtækin leggja Matvælastofnun (MAST) til og lesa má af sérstöku mælaborði á vefsíðu stofnunarinnar.

Hægt er að reikna út frá upplýsingum í mælaborði MAST að 1.350.000 eldislaxar hafa drepist í sjókvíum á fyrri helmingi ársins. Sérstaka athygli vekur að af þeim drápust 400 þúsund laxar í kvíunum í júnímánuði einum saman. Voru það 2,52 prósent af laxi í kvíum fyrirtækjanna í júní. Sem hlutfall af laxi í kvíunum drápust þrefalt fleiri laxar í júní á þessu ári en í fyrra.

„Það er engin ein skýring á þessu heldur er þetta sitt lítið af hverju.“

„Það er engin ein skýring á þessu heldur er þetta sitt lítið af hverju,“ segir Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá MAST, um orsakir laxadauðans. Hann nefnir þó sérstaklega afföll í seiðaflutningum og óvenju mikinn kísilþörungablóma bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum í lok maí og byrjun júní.

„Aðalatriðið er að það séu engir smitsjúkdómar á ferðinni og það hefur ekkert slíkt komið upp en við tókum eftir því að þegar þörungarnir byrjuðu að láta á sér kræla þá urðu aukin aföll í kvíunum, þörungarnir fara svolítið illa í tálknin,“ segir Gísli.

Laxeldi hefur vaxið afar hratt hér undanfarin ár. Framleiðslan á árinu 2020 var um það bil tífalt meiri en aðeins fimm árum áður, eða 34.341 tonn á móti 3.260 árið 2015. Gísli segir viðbúið að afföllin aukist með aukinni framleiðslu.

„Þessi skelfilegi dauði er þó ekki allt og sumt sem plagar þennan iðnað“

Afföll í sjókvíunum eru yfirleitt mun meiri á fyrstu þremur mánuðum ársins sem eru þeir köldustu heldur en að sumarlagi. Í janúar í ár voru afföllin 0,7 prósent, 2,06 prósent í febrúar og 1,3 prósent í mars.

Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins, fjallar um laxeldi í sjókvíum í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag og segir að frá janúar til júní hafi rúmlega 1,3 milljónir eldislaxa drepist.

„Þessi skelfilegi dauði er þó ekki allt og sumt sem plagar þennan iðnað því um helmingur eldislaxanna í sjókvíunum er ýmist vanskapaður, nær ekki fullum þroska vegna streitu eða er heyrnarlaus,“ skrifar Jón.