Um miðjan október á síðasta ári voru 366 börn á bið eftir þverfaglegri ADHD-greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna. Árið áður voru þau 432 en 351 árið 2020. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, á vef Alþingis en biðtíminn er um tólf mánuðir og er um 35 prósent tilvísana vísað frá.

Samkvæmt viðmiðum embættis landlæknis frá 2016 er ásættanlegur biðtími eftir skoðun sérfræðings er 30 dagar og ásættanlegur biðtími aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi um 90 dagar.

Í svari ráðherra kemur auk þess fram að alls bíði 55 börn eftir viðtali hjá lækni teymisins en meðalbiðtími eftir því um átta mánuðir.

Af þeim 340 tilvísunum sem bárust Geðheilsumiðstöðinni frá stofnun í apríl og til október þegar fyrirspurnin er send var 122 vísað frá. Segir í svari að fyrir því hafi verið margs konar ástæður.

„Tilvísanir sem berast Geðheilsumiðstöð barna eru metnar á þverfaglegum inntökufundi þar sem ákvarðanir eru teknar um vinnslu og afdrif máls. Frávísanir nýrra tilvísana geta til að mynda skýrst af því að þörfum barnsins sé betur mætt af öðrum þjónustuveitendum, svo sem Barna- og unglingageðdeild eða Ráðgjafar- og greiningarstöð, eða að gögn vanti. Frávísun getur líka skýrst af því að mál barnsins er nú þegar í vinnslu hjá öðrum þjónustuveitendum eða að um mjög ungt barn sé að ræða. Er tilvísandi aðili upplýstur og leiðbeint um næstu skref. Ef um mjög ungt barn er að ræða og réttast að bíða með greiningarferli er meðal annars mælt með þjónustu í nærumhverfi og tilvísandi aðila boðið að vísa á ný til Geðheilsumiðstöðvar barna ef þjónusta í nærumhverfi ber ekki árangur,“ segir í svari ráðherra.

Þar kemur einnig fram að sérstaklega sé unnið að því í Geðheilsumiðstöðinni að stytta biðtíma barna og að heilbrigðisráðherra hafi meðal annars samþykkt að farið verði í tímabundið átaksverkefni í samráði við sjálfstætt starfandi barnalækna og barnageðlækna til þess að vinna á biðlistum eftir ADHD-greiningum lækna og að hann undirbúi skipun nefndar um gerð grænbókar um stöðu ADHD-mála á Íslandi.

„Grænbókin verður unnin út frá samráðssjónarmiðum með áherslu á upplýsingasöfnun, stöðumat og framtíðarsýn. Einnig verður í henni lýst samvinnu helstu kerfa sem snerta málaflokkinn og þeim áskorunum og tækifærum sem þar leynast. Væntingar standa til þess að grænbókarvinnan leiði af sér tillögur til úrbóta í málaflokknum.“