Fjöldi manns er mættur fyrir utan dóms­mála­ráðu­neytið til að mót­mæla fyrir­hugaðri brott­vísun Maní, 17 ára trans­drengs, og for­eldrum hans til Portúgal í fyrra­málið. Mót­mælin hófust klukkan 15 og voru um 300 mættir að mót­mæla rétt fyrir klukkan 15:30.


„Okkur líður alls ekki vel. Við erum skelfingu lostin. Maní, sonur minn, vill alls ekki fara til baka. Hér hefur hann fundið fyrir öryggi og eignast vini,“ sagði Shokoufa, móðir Maní í sam­tali við Frétta­blaðið á föstu­daginn þar sem hún rakti erfiða sögu fjöl­skyldunnar.

Sölvhólsgötunni var lokað skömmu eftir að mótmælin hófust. Rútur áttu erfitt með að komast í gegnum mannþröngina.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fjöl­skyldan kemur frá Íran en flúði þaðan til Portúgal þar sem hún dvaldist í nokkra daga áður en haldið var til Ís­lands. Í Portúgal hafa þau ekki hlotið neina vernd en voru þar með sjö daga ferða­visa, vega­bréfs­á­ritun sem veitir inn­göngu í viss lönd, sem þau notuðu til að komast til Ís­lands.


Maní er nemandi við Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja, þar sem hann hefur fest rætur, eignast vini og tengst sam­fé­laginu. Hann hefur fengið mikinn stuðning frá hin­segin sam­fé­laginu á Ís­landi og er ljóst að réttindi hans eru tölu­vert meiri sem hin­segin ein­stak­lingur hér á Ís­landi en í Portúgal og Íran.

Kennarar við Hlíða­skóla, sem sitja í teymi sem lætur sig varða mál­efni hin­segin barna, standa að mót­mælunum og þá er undir­skrifta­söfnun í gangi fyrir Maní. Kennararnir sendu Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttur dóms­mála­ráð­herra einnig opið bréf þar sem skorað er á stjórn­völd um að endur­skoða á­kvörðun sína um að senda drenginn úr landi.


Ekki náðist í Ás­laugu Örnu dóms­mála­ráð­herra við gerð fréttarinnar.