Um 300 eftirskjálftar hafa mælst eftir jarðskjálftann sem átti sér stað í gær klukkan 13.21 sem mældist 5,2 að stærð. Sá stærsti mældist 2,7 að stærð og má gera ráð fyrir því að eftirskjálftavirknin haldi áfram eitthvað næstu daga.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að talsvert hafi þó dregið úr skjálftavirkninni frá miðnætti aðfaranótt föstudags.

Elísabet segir Heklu ekki hafa sýnt nein merki, „en við fylgjumst sérstaklega vel með henni núna til öryggis af því þetta er ekki langt í burtu frá henni.“ Hún segir allt með eðlilegum hætti á svæðinu.

Upptök jarðskjálftans í gær var á um fimm kílómetra dýpi í Vatnafjöllum á Suðurlandi sem er um átta kílómetrum suður af Heklu.

Á myndinni má sjá þá skjálfta sem hafa mælst í Vatnafjöllum í dag.
Mynd/Veðurstofa Íslands

Á vef Veðurstofu Íslands segir að staðsetning skjálftans hafi verið austast á Suðurlandsbrotabeltinu. Það er eitt virkasta skjálftasvæði landsins.

Margir muna eflaust eftir Vatnafjallaskjálftanum árið 1987 en hann var á svipuðum slóðum og skjálftinn í gær og var 5,8 að stærð.

Upptök skjálftans er ekki langt frá Heklu og því mun Veðurstofan vakta virkni Heklu sérstaklega vel í kjölfar skjálftans.

Engar tilkynningar hafa borist Veðurstofunni eða lögreglunni á Suðurlandi vegna tjóns á svæðinu, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Fréttablaðið heyrði í ferðaþjónustubóndanum, Anders Hansen, í Heklusetrinu á Leirubakka. Hann sagði skjálftann hafa fundist vel.

„Hann var sterkur og fannst mjög greinilega. Þetta var ekki mikið högg en hann varði dálítið lengi og þá skrölti í húsum en engar skemmdir,“ segir Anders.

Nokkrir erlendir ferðamenn voru staddir í hesthúsi á svæðinu þegar skjálftinn reið yfir og lýstu mikilli undrun þegar þau fundu jörðina skjálfa.

Anders segir að hestarnir hafi haldið ró sinni en ferðamennirnir hafi orðið steinhissa.