Formaður úthlutunarnefndar Jöfnunarsjóðs gerir ráð fyrir því að minnst 30 kirkjusöfnuðir í landinu geti talist ógjaldfærir vegna skertra sóknargjalda og að það mætti segja að þeir séu gjaldþrota. Það kom fram á vef Kjarnans í gær og í Morgunblaðinu í dag en þar er vísað til umsagnar frá Kirkjuþingi þjóðkirkjunnar við fjárlagafrumvarp næsta árs.
Þar eru gerðar athugasemdir við að gert sé ráð fyrir fimm prósenta lækkun sóknargjalda í fjárlagafrumvarpi næsta árs og að krónutala verði því lægri á sama tíma og verðbólga er tíu prósent.
„Tilfinningin er sú að miklu fleiri söfnuðir séu í fjárhagsvanda en að einhverju leyti sé vandanum ýtt á undan með því að draga úr þjónustu og starfi og fresta viðhaldi fasteigna. Jöfnunarsjóður hefur í ákveðnum tilvikum haldið safnaðarstarfi á lífi með árlegum styrkjum en það er ekki hlutverk sjóðsins til lengri tíma litið,“ segir enn fremur í umsögninni sem hægt er að lesa hér.