Sam­kvæmt mælingum mynda­véla­bíls á Suður­lands­vegi í dag og í gær er um 30% minni um­ferð á veginum í samanburði við sama tíma í fyrra. „Það er bara búið að vera blautt en það er tals­vert minni um­ferð og ekki eins margt fólk á ferðinni og í fyrra,“ segir Aðal­steinn Guð­munds­son, varð­stjóri hjá um­ferðar­deild lög­reglunnar.

Umferðin út úr bænum í dag hefur gengið vel fyrir sig að hans sögn. „Ég sá hjá Vega­gerðinni í morgun að það óku um 19 þúsund bílar um Geit­háls í fyrra en þeir eru um 9 þúsund þar sem af er degi núna,“ segir Aðalsteinn.

Hann segir að lög­reglan hefur ekki þurft að sekta mikið í dag. „Hraða er bara vel stillt í hóf og erum við á­nægðir með það,“ segir Aðal­steinn

„Bíll við bíl á lítilli ferð alveg frá þrengingu og að Höfð­babakk­brú“

Frétta­blaðið hafði einnig sam­band við Guð­brand Sigurðs­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjón hjá um­ferða­deild lög­reglunnar, sem var sjálfur á leið úr bænum.

„Á leið minni núna sé ég að það er mikill um­ferð um Vestur­lands­veginn. Það er þrenging upp í Mos­fells­bæ sem hefur á­hrif og það er bíll við bíl á lítilli ferð alveg frá þrengingu og að Höfð­babakk­brú alla­vega þegar ég fór þar um. Svo er tals­verð um­ferð norður um Vestur­lands­veginn,“ segir Guð­brandur.

Hann bendir á að allar helgar í júlí­mánuði hafa verið miklar um­ferðar­helgar og því sé minni munur á verslunar­manna­helginni núna en áður.

„Það sem hefur á­hrif mögu­lega á Suður­lands­veginn er að það er appel­sínu­gul við­vörun á Suð­austur­landi og gul á Suður­landi. Þannig þeir sem eru með ferða­vagna og hús­bíla gætu setið á sér og ætlað af stað á morgun þar sem þá er mun betri veður­spá,“ segir Guð­brandur.

Raðir í verslanir og vínbúðir

Þrátt fyrir að umferð út úr bænum sé minni en áður hafa raðir myndast við verslanir og vínbúðir á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er verið að telja inn í matvöruverslanir til að tryggja fjöldatakmarkanir og tveggja metra regluna.

Vínbúðin í Skeifunni
Ljósmynd/aðsend
Röð inn í verslun Fjarðarkaupa.
Ljósmynd/aðsend