Um 250 flóttamenn sem fengið hafa synjun um alþjóðlega vernd hér á landi verður nú vísað úr landi.

Þeim hefur nú verið boðið að yfirgefa landið sjálfir en þeir sem þiggja það ekki munu fara í fylgd með lögreglu, samkvæmt tilkynningu frá lögreglu.

Covid kom í veg fyrir brottvísanir

Fréttablaðið greindi frá því í dag að flóðbylgja brottvísana úr landi væru nú framundan eftir að hafa legið niður að mestu í tvö ár vegna Covid-19.

Ekki hefur verið hægt að vísa einstaklingum frá landi vegna þess að þeir hafa neitað að undirgangast sóttvarnarreglur móttökuríkja líkt og kröfur um framvísun vottorðs um bólusetningu eða neikvæða sýnatöku.

Íslensk stjórnvöld hafa hvorki haft heimild til að krefja einstaklinga um sýnatöku né afhendingu vottorða og því hefur ekki verið unnt að vísa þeim úr landi nema með samþykki þeirra sjálfra.

Nú þegar Covid-19 faraldurinn er í rénun hafa fjölmörg lönd afnumið reglur um sóttvarnir á landamærum sínum.

Það gerir stjórnvöldum kleift að ákvarða um frávísanir einstaklinga til annarra ríkja.

Ómannúðlegar aðgerðir

Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að í einhverjum tilvikum væri um að ræða fólk sem hefur verið hér í töluvert langan tíma og fest hér rætur, fengið vilyrði um vinnu, eignast barn og myndað tengsl við íslenskt samfélag.

„Heimsfaraldur kórónaveiru takmarkaði mjög tækifæri stjórnvalda til að vísa fólki á brott, sem jók tímalengd dvalar hér á landi. Að taka þann hóp núna og reka úr landi er ámælisvert og ekki í anda samfélags mannúðar og kærleika,“ sagði Magnús Davíð jafnframt.