Dánar­tölur af völdum CO­VID-19 hækka ört og hafa nú 19,675 manns látist úr sjúk­dómnum á heims­vísu, sam­­kvæmt John Hop­kins rann­­sóknar­há­­skólanum í Banda­­ríkjunum.

Lang­flest dauðs­föllin eru á Ítalíu en þar hafa 6,820 manns látist. Spánn kemur þar á eftir með 3,434 dauðs­föll. Fleiri hafa nú látist á Spáni af völdum CO­VID-19 en í Kína en hægt hefur veru­lega á dauðs­föllum þar. Alls hafa 3,285 manns látist í Kína. Yfir 2,000 manns hafa látist í Íran af völdum CO­VID-19 og yfir 1,000 manns í Frakk­landi.

Yfir 800 manns hafa látist í Banda­ríkjunum, þar af um 200 í New York ríki. Ríkis­stjóri New York ríkis, Andrew Cu­omo, tísti í gær að ríkið myndi gera allt sem í sínu valdi stendur til að reyna draga úr dauðs­föllum af völdum CO­VID-19. Í­búar í New York borg hafa verið beðnir um að halda sig innan­dyra og þá hefur verið lokað fyrir alla ó­nauð­syn­lega þjónustu.

Stað­fest smit eru orðin 438,749 en þá hafa 111,895 manns náð sér eftir að hafa smitast af veirunni. Lang­flestir þeirra sem hafa náð sér eru frá Kína en 73,773 manns hafa náð bata eftir smit þar í landi.

Sam­kvæmt frétta­vef BBC er um fjórðungur heimsins undir annað hvort sam­komu- eða út­göngu­banni.