Hrina eft­ir­skjálfta frá stóra skjálftanum á Reykjanesinu í gær er enn í gangi en 600 til 700 eft­ir­skjálft­ar hafa mælst frá miðnætti. Um 1700 eftirskjálftar hafa mælst í skjálftahrinunni sem hófst í gær.

Hrinunni er ekki lokið og nú í morgun mældust tveir skjálftar í Fagradalsfjalli annar klukkan 06:05 að stærð 3,7 og sá síðari klukkan 06:23 að stærð 3,8. Klukkan 10:14 í morgun varð skjálfti að stærð 3,1 sem íbúar höfuðborgarsvæðisins fundu fyrir. Samkvæmt vef Veðurstofunnar voru upptök hans 4,5 kílómetra austur af Keili.

Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftarnir hafi fundist í byggð á Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð. 

Veðurstofan minnir íbúa innan áhrifasvæðis skjálftanna að kynna sér vel viðbrögð við jarðskjálftum og varnir gegn þeim sem finna má á vef Almannavarna.

Stærsti skjálfti á Reykja­nes­skaga síðan 1968

Jarðskjálftinn fannst um allt höfuðborgarsvæðið og víðar rétt fyrir klukkan tvö í gær. Skjálftinn var um 5,6 að stærð samkvæmt vef Veðurstofunnar. Skjálftinn tengist virkni á fleka­skilunum en mikil ó­kyrrð hefur verið á Reykja­nes­skaga megnið af árinu. „Það hefur ekki orðið svona stór skjálfti á Reykja­nes­skaga síðan árið 1968, segir Páll Einars­son," jarð­eðlis­fræðingur.