Alls hafa um 44 þúsund manns náð í stafrænt ökuskírteini en opnað var fyrir umsóknir á miðvikudaginn.

Þetta staðfestir Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands í samtali við RÚV.

Hægt er að sækja um stafræna skírteinið á Ísland.is með rafrænum skilríkjum.

Mikil aðsókn var þegar fyrst var opnað fyrir umsóknir og lá Ísland.is niður hluta dags vegna álags.

Þegar mest var á vefnum reyndu um 2.200 manns að sækja ökuskírteinið á hverri sekúndu.

Umsóknarferlið er afar einfalt og tekur aðeins um fimm til tíu mínútur að fá skírteinið í símann.

Stafræn ökuskírteini eru jafngild hefðbundnum ökuskírteinum á Íslandi. Þau gilda þó aðeins á Íslandi og einungis er hægt að hafa ökuskírteinið í einu símtæki.

Það gengur hvort tveggja fyrir Android- og iOS-stýrikerfi og góðar leiðbeiningar fylgja með umsóknarferlinu.

Þeir ökumenn sem hafa ekki endurnýjað ökuskírteini sín frá því fyrir árið 1998 þurfa að endurnýja þau hjá sýslumanni til að geta fengið skírteinið í símann.