Um það bil 100 fuglar koma úr höfninni í Vestmannaeyjum ataðir svartolíu á hverju ári.

„Þetta er búið að vera viðvarandi vandamál. Þetta er óeðlilega mikið,“ segir Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, í samtali við Fréttablaðið. Svartolían lekur út í sjóinn út frá skipum sem sigla inn í höfnina. Erfitt er að hreinsa svartolíu sem lendir í sjó og skapar mengunin hættu fyrir lundapysjur.

Missa flotið og drepast

Til stendur að banna svartolíu í skipum innan íslenskrar landhelgi frá og með næstu áramótum. Samkvæmt núverandi reglugerð frá árinu 2015 er leyfilegt að brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti innan landhelginnar sé 3,5 prósent en með breytingunum færi það niður í 0,1 prósent. Þá verður skipt yfir í annars konar olíu.

„Það er sama hvernig olía þetta er. Ef þetta liggur í sjónum og fuglarnir komast í þetta, þá missa þeir flotið og sökkva og drepast,“ segir Erpur.

Fuglarnir eru í þó nokkurn tíma að jafna sig eftir þrifin.

„Það þarf að þurrka þá vel og smyrja fjaðrirnar með fitu úr fitukirtli undir stélinu, þannig að þeir verði vatnsheldir aftur,“ segir Erpur.

Deila athvarfi með mjöldrunum

Starfsmenn og sjálfboðaliðar Náttúrustofu sjá um að þrífa olíublauta fugla. Karen Lynn Velas, bandarískur líffræðingur, kom til Vestmannaeyja árið 2017 og kenndi starfsmönnunum að þrífa olíublauta fugla. Lundaathvarfið er í Þekkingarsetri Vestmannaeyja og deila þeir byggingu með mjöldrunum í gestastofu Sea Life Trust.

„Ég kom fyrst til Vestmannaeyja fyrir fimm árum. Ég lærði að þrífa olíublaut dýr í San Francisco eftir olíulekann árið 2007,“ segir Karen í samtali við Fréttablaðið.

Lundi í saltvatni. „Það þarf að þurrka þá vel og smyrja fjaðrirnar með fitu úr fitukyrtli undir stélinu, þannig að þeir verði vatnsheldir aftur.“
Karen Lynn Velas