„Fram eftir öllum degi verður töluverður blástur af norðri og hitinn fer hæst í 11-12 stig þegar best lætur. En vegna þessa vinds þá sýnist mér að það verði úlpuveður eða a.m.k. að lopapeysan sé með“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur eða Siggi stormur um veðrið á Menningarnótt sem fer fram í Reykjavík á morgun.

„Það verður bjart veður að mestu framan af degi og líklega heiðskírt um kvöldið. Um kvöldmatarleytið snýst vindurinn síðan úr norðrinu til norðausturs og þá skýlir Esjan okkur fyrir vindinum og þá dettur hann að miklu leyti niður á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Siggi og að þá megi kannski segja að flís- eða lopapeysan muni duga.

„Þó verður að geta þess að hiti fer niður undir 7°C í heiðríkjunni um kvöldið og því betra vera betur klæddur en minna“ segir Siggi.

„En ég held að ég verði að segja að við séum frekar heppinn með veðrið á þessum stóra degi, því þurrasti partur landsins verður í Reykjavik, eða öllu heldur á suðvestanverðu landinu“.

Hér má sjá hvernig hitatölurnar verða á morgun klukkan 15.
Mynd/Siggi stormur