Úlfurinn verður að verndaðri tegund í Slóvakíu þann 1. júní næst­komandi. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu Al­þjóða­n­áttúru­verndar­sjóðsins.

Land­búnaðar­ráðu­neyti Slóvakíu veitir venju­lega kvóta til úlfa­veiða sem hleypur á nokkrum tugum dýra, og var 50 úlfar á síðasta veiði­tíma­bili. Frá árinu 2000 hafa um 1.800 úlfar verið veiddir lög­lega í landinu þar sem einnig ber á ó­lög­legum veiðum.

Af um það bil tólf þúsund úlfum í Evrópu utan Rúss­lands er talið að á bilinu 1.000 til 1.800 séu í Slóvakíu.

Á­kvörðunin um að banna veiðarnar var tekin í kjöl­far her­ferðar sem fjöldi náttúru­verndar­sam­taka tók þátt í. Þar var því haldið fram að ekki væri hægt að koma í veg fyrir veiðar á úlfum sem færu yfir landa­mæri á svæðum þar sem kvótinn væri í gildi.

Þá var því einnig haldið fram að úlfarnir hefðu já­kvæð á­hrif fyrir iðnað í landinu þar sem þeir drægju úr nei­kvæðum á­hrifum dá­dýra á skóg­rækt og land­búnað.