Ulf Kristersson, formaður Hægriflokksins, er nýr forsætisráðherra Svíþjóðar. Þingforseti veitti honum umboð síðastliðinn föstudag og sænska þingið samþykkti hann rétt í þessu.
Ný ríkisstjórn í Svíþjóð samanstendur af Hægriflokkum, Kristilegum demókrötum og Frjálslynda flokknum og er minnihlutastjórn sem varin er vantrausti af Svíþjóðardemókrötum, þeim flokki sem er lengst til hægri í sænskum stjórnmálum.
„Mér líður frábærlega, ég er þakklátur fyrir traustið sem ég hef fengið frá þinginu og líka auðmjúkur yfir því verkefni sem er fram undan,“ sagði Kristersson á blaðamannafundi eftir að þingið samþykkti hann sem forsætisráðherra.
Ríkisstjórnin hefur nauman meirihluta, sem sýndi sig þegar kosið var um Kristersson. 176 þingmenn kusu með honum en 173 kusu gegn honum.
Síðar í dag mun Kristersson kynna ráðherrana í ríkisstjórn sinni en þeir munu dreifast á Hægriflokkinn, Kristilega demókrata og Frjálslynda flokkinn.
Magdalena Andersson, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, óskaði Kristersson til hamingju með staðfestinguna á Instagram. Hún segir mikla ábyrgð hvíla á Jimmie Åkesson, formanni Svíþjóðardemókrata, og Ulf Kristersson en Stjórnmálaskýrendur í Svíþjóð hafa sagt áhrif Svíþjóðardemókrata í ríkisstjórninni verða mikil.
„Fyrir kosningarnar lofuðu hægri íhaldsflokkarnir fjórir miklu. En við erum nú þegar að heyra hvernig þeir eru farnir að svíkja loforð sín við kjósendur. Þeir hafa lagt fram samkomulag sem kann að leysa innri vandamál í hægrisamstarfinu en gleyma félagslegum vandamálum sem eiga á hættu að gera Svía fátækari.
Hún sagðist alltaf tilbúin að stíga inn í ríkisstjórn ef Jimmie Åkesson og Ulf Kristersson mistakast sitt stjórnarsamstarf.