Ulf Kristers­son, for­maður Hægri­flokksins, er nýr for­sætis­ráð­herra Sví­þjóðar. Þing­for­seti veitti honum um­boð síðast­liðinn föstu­dag og sænska þingið sam­þykkti hann rétt í þessu.

Ný ríkis­stjórn í Sví­þjóð saman­stendur af Hægri­flokkum, Kristi­legum demó­krötum og Frjáls­lynda flokknum og er minni­hluta­stjórn sem varin er van­trausti af Sví­þjóðardemó­krötum, þeim flokki sem er lengst til hægri í sænskum stjórn­málum.

„Mér líður frá­bær­lega, ég er þakk­látur fyrir traustið sem ég hef fengið frá þinginu og líka auð­mjúkur yfir því verk­efni sem er fram undan,“ sagði Kristers­son á blaða­manna­fundi eftir að þingið sam­þykkti hann sem for­sætis­ráð­herra.

Ríkis­stjórnin hefur nauman meiri­hluta, sem sýndi sig þegar kosið var um Kristers­son. 176 þing­menn kusu með honum en 173 kusu gegn honum.

Síðar í dag mun Kristers­son kynna ráð­herrana í ríkis­stjórn sinni en þeir munu dreifast á Hægri­flokkinn, Kristi­lega demó­krata og Frjáls­lynda flokkinn.

Magda­lena Anders­son, fyrrum for­sætis­ráð­herra Sví­þjóðar, óskaði Kristers­son til hamingju með stað­festinguna á Instagram. Hún segir mikla á­byrgð hvíla á Jimmi­e Åkes­son, for­manni Sví­þjóðardemó­krata, og Ulf Kristers­son en Stjórn­mála­skýr­endur í Sví­þjóð hafa sagt á­hrif Sví­þjóðardemó­krata í ríkis­stjórninni verða mikil.

„Fyrir kosningarnar lofuðu hægri í­halds­flokkarnir fjórir miklu. En við erum nú þegar að heyra hvernig þeir eru farnir að svíkja lof­orð sín við kjós­endur. Þeir hafa lagt fram sam­komu­lag sem kann að leysa innri vanda­mál í hægri­sam­starfinu en gleyma fé­lags­legum vanda­málum sem eiga á hættu að gera Svía fá­tækari.

Hún sagðist alltaf til­búin að stíga inn í ríkis­stjórn ef Jimmi­e Åkes­son og Ulf Kristers­son mis­takast sitt stjórnar­sam­starf.