„Þetta er harmleikur tveggja landa. Það mun taka áratugi að jafna sig á þessu,“ segir Andrei Menshenin, skipuleggjandi mótmælanna Russians against the war, sem fara fram klukkan tvö á morgun, laugardag, fyrir utan rússneska sendiráðið í Reykjavík.Búist er við fjölmenni á mótmælunum. Maria Alyokhina, meðlimur rússneska andófslistahópsins Pussy Riot, verður meðal ræðumanna.Mótmælin eru skipulögð af Íslandsdeild Russians against the war. Hópurinn hefur staðið fyrir fjölmörgum mótmælum við rússneska sendiráðið.
Andrei vonast eftir að mótmælin verði fjölmenn af fólki af öllum þjóðernum sem er á móti innrás Rússa í Úkraínu.
„Ég finn fyrir mikilli sorg vegna stríðsins,“ segir Andrei. „Þetta stríð er harmleikur tveggja landa. Þetta er harmleikur fyrir Úkraínu, þar sem fjöldi fólks hefur tapað lífi sínu eða öllu sem það átti. En þetta er einnig harmleikur fyrir Rússland. Efnahagurinn er í rúst og framtíð landsins er í algerri óvissu,“ segir Andrei. Hann bætir við að hundruð þúsunda Rússa hafi þurft að flýja landið í leit að betra lífi.Andrei segir að hann óttist um líf skyldmenna sinna og vina í Rússlandi.
Hann reynir að vera í daglegum samskiptum við fólkið sitt, en að hans sögn er öryggi þess og mannréttindum ógnað daglega.
„Þetta eru mikil vonbrigði. Í upphafi innrásarinnar héldum við að þessu yrði lokið fljótlega og að samið yrði um frið. En núna sjáum við að það er of seint og að skaðinn er skeður,“ segir Andrei.
Hann telur að það muni taka marga áratugi fyrir löndin að jafna sig á þessu stríði.Andrei segir að Rússland sé fjölmennt land og þó að margir Rússar styðji Pútín og innrásina, þá sé einnig stór hluti Rússa sem vilji ekkert með stríðið hafa.
„Þarna er venjulegt fólk sem vill lifa venjulegu lífi,“ segir Andrei.Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, verður einnig á mótmælunum.Guttormur segir það mikilvægt að styðja við mótmæli Rússa sem gagnrýna Pútín og innrásina í Úkraínu.
Að sögn Guttorms er augljóst að það kraumi óánægja með stríðið í Rússlandi, en þúsundir hafa flúið landið, meðal annars til að forðast herskyldu.„Við verðum að styðja við mótmæli gegn stríðinu sem eru að eiga sér stað í Rússlandi og það andóf sem er gegn stríðinu þar,“ segir Guttormur.