Úkraínskum ríkisborgurum hefur fjölgað um rúm 600 prósent hér á landi frá því í desember. Alls voru skráðir 1.679 einstaklingar frá Úkraínu með búsetu hér á landi þann 1. september.

Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá Þjóðskrá.

Í upphafi desember í fyrra voru 239 úkraínskir ríkisborgarar hér á landi en í dag eru þeir 1.679 og hefur því fjölgað um 1.440. Aðeins fimm þjóðir eiga hér fleiri fulltrúa. Frá Póllandi eru 22.567 manns, 4.983 frá Litáen, 3.334 frá Rúmeníu, 2.555 frá Lettlandi og frá Þýskalandi eru 1.763 búsettir hér á landi.

Pólskum ríkisborgurum fjölgar um 6,5 prósent á milli ára og eru þeir um 5,9 prósent allra landsmanna. Þá eru hinir 22.567 Pólverjar um þriðjungur af þeim rúmlega 61 þúsund erlendu ríkisborgurum sem eru með búsetu hér á landi.