Andrzej Duda, forseti Póllands var í dag fyrsti erlendi þjóðarleiðtoginn til þess að ávarpa úkraínska þingið frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst. Hann sagði Úkraínumenn eiga einir rétt á að ákvarða sína eigin framtíð. Reuters greina frá þessu.
„Áhyggjuraddir hafa birst sem segja að Úkraína eigi að láta undan kröfum Pútíns, en aðeins Úkraína hefur rétt til þess að ákvarða sína eigin framtíð,“ sagði Duda. Hann sagði alþjóðasamfélagið þyrfti að krefjast þess að Rússar dragi sig til baka frá úkraínsku landsvæði.
Yfirvöld í Úkraínu hafa útilokað hvers kyns friðarsamkomulag sem fæli í sér að þau láti af hendi landsvæði. Þau hafa einnig vísað á bug kröfum um vopnahlé en þau vilja meina að rússneskar hersveitir myndu nýta vopnahléið til þess að endurreisa herlið sitt, á meðan þær væru enn þá á hernumdum svæðum Úkraínu.
Pólverjar hafa verið talsmenn harðra refsiaðgerða gegn Rússlandi og hafa verið ötulir stuðningsmenn þess að Úkraína gerist aðili að Evrópusambandinu.
„Ég mun ekki hvíla mig fyrr en Úkraína verður aðili að Evrópusambandinu,“ sagði Duda.
Pólverjar fá sérstaka réttarstöðu í Úkraínu
Vlodimír Selenskíj, forseti Úkraínu, tilkynnti í dag að Pólskir ríkisborgarar í Úkraínu myndu fá sömu réttindi og úkraínskir flóttamenn í Póllandi njóta nú. Pólverjar myndu því fá „sérstaka réttarstöðu“ undir þessum lögum.
Pólland hefur veitt um þremur milljónum úkraínskra flóttamanna rétt til þess að búa, starfa og krefjast greiðslu frá almannatryggingum í Póllandi.