Úkraína þakkar Íslandi er tveggja daga hátíð sem verður haldin þann 8. og 9. október. Tanya Korolenko skipuleggjandi segir að Úkraínumenn vilji sýna Íslendingum þakklæti sitt með fjölbreyttum viðburðum tengdum úkraínskri menningu; vinnusmiðjum, kvikmynda- og listasýningum, tónleikum, og smökkun á Borshch - úkraínskri grænmetissúpu svo fátt eitt sé nefnt.

Tanya segist vera að spreyta sig í fyrsta sinn að skipuleggja viðburð af þessu tagi. Hún stýrði sumarbúðum fyrir börn á vegum KFUM og KFUK í Úkraínu áður en hún flúði heimalandið til Íslands og segist hafa fundið sig knúna til að koma þakklæti sínu og annarra á framfæri. Allir ætla að leggjast á eitt; börn búa til armbönd og fullorðnir elda súpu og listamenn sýna listir sínar.

„Við höfum ekkert fjármagn en við getum eldað, við getum skapað og við getum skemmt fólki,“ segir Tanya. „Við höfum hist reglulega og í hvert sinn hefur borist í tal hversu frábærir sjálfboðaliðarnir á Íslandi eru. Við höfum oft rætt um að gefa eitthvað til baka og nú ákváðum við að taka af skarið og setja saman viðburð til að segja takk.“

Ekki bara þjóðbúningur

Á viðburðinum verður lögð áhersla á samtímamenningu.

„Úkraínumenn hafa áður haldið viðburði á Íslandi en kannski ekki jafn metnaðarfulla og nú. Ég sá að margir mættu í vyshyvanka á fyrri viðburði, sem er þjóðbúningur Úkraínu, og þau mega að sjálfsögðu mæta í þannig en nú verður áhersla lögð á nútímann og dægurmenningu,“ segir Tanya.

Tanya hefur verið á fullu ásamt hópnum að setja saman viðburðinn og hefur lítið getað sofið bæði vegna spennu og tilhlökkunar. Enn vantar hljóðmann en „þetta reddast“ segir Tanya. Hún segir þetta fyrsta frasann sem hún lærði hér á landi. „Þetta er allt öðruvísi hugsunarháttur en ég er vön,“ útskýrir hún. „Íslendingar virðast alltaf verið tilbúnir til að hjálpa hver öðrum. Að standa saman á erfðum tímum. Að vera áfram á sama staðnum þrátt fyrir náttúruhamfarir. Úkraínumenn eru hins vegar alltaf tilbúnir í byltingu, stríð og kreppu. Alltaf tilbúin til að flýja.“

„Sumir upplifa skömm að vera flóttamenn. Að þurfa að fá notuð föt, að þurfa að fá fjárhagsaðstoð, að vera stöðugt fórnarlamb.“

Hátíðin fer fram í Kolaportinu við Tryggvagötu í miðbæ Reykjavíkur. Allir eru velkomnir

Þolir ekki að vera „endalaust fórnarlamb“

Tanya segir marga Úkraínumenn líða óþægilega með að lifa á bónbjörgum.

„Sumir upplifa skömm að vera flóttamenn. Að þurfa að fá notuð föt, að þurfa að fá fjárhagsaðstoð, að vera stöðugt fórnarlamb. Þess vegna er þetta ekki bara góður viðburður fyrir Íslendinga heldur einnig fyrir Úkraínumenn. Við getum komið saman og fagnað menningu okkar. Við getum líka verið kúl,“ segir Tanya og hlær.

„Ég þoli ekki að vera fórnarlamb. Ég vil geta fagnað. Á sama tíma vil ég aldrei gleyma þessu stríði. Sumir vilja bara gleyma, loka augunum og leiða athyglina annað, sem er eðlilegt þegar maður upplifir áfall. En ég vil skrifa um þetta. Ég gleymi aldrei augnablikinu þegar ég áttaði mig á því að innrásin væri hafin. Ég vaknaði, held ég við sprengjuóm í fjarska, og sá fimm ósvöruð símtöl frá mömmu minni og þrjú frá mínum fyrrverandi í Þýskalandi. Ef þetta hefði bara verið mamma að reyna að ná í mig hefði ég haldið að eitthvað hefði gerst fyrir pabba. En svo hugsaði ég ... hvers vegna í ósköpunum er fyrrverandi að hringja í mig? Og þá áttaði ég mig á því: Stríðið er hafið.“

Hún segist hafa fundið adrenalínið flæða allan daginn. „Adrenalín er svo furðulegt. Mér fannst eins og ég væri furðulega hamingjusöm þennan dag. En auðvitað var ég hrædd. Alveg skelfingu lostin.“

Aðspurð segist Tanya almennt heyra jákvæðar fréttir af vinum sínum og fjölskyldu sem fengu hæli í öðrum löndum. Af og til spretta upp sögur þar sem svindlað er á flóttafólki eða þeim lofað húsnæði og það svo tekið til baka, en almennt sé tekið vel á móti fólki.

„En svo getur verið gríðarlega erfitt að vita af fjölskyldunni enn í Úkraínu. Foreldrar mínar og systir eru enn í Kænugarði og þau vilja ekkert fara. Systir mín er sérstaklega þrjósk og segist frekar vilja deyja í Úkraínu en að yfirgefa heimalandið.“

Helmingur skóla í Úkraínu byrjuðu samkvæmt áætlun 1. september. Myndin er tekin 27. september í grunnskóla í Kænugarði.
Fréttablaðið/Getty images

Tanya sneri aftur til Kænugarðs í ágúst og tók með sér gjafir frá Úkraínumönnum á Íslandi til fjölskyldna þeirra. Hún flaug til Póllands og gekk yfir landamærin, það hafi tekið styttri tíma en að taka lestina.

„Lífið heldur áfram í Kænugarði. Ef það væri ekki fyrir loftvarnaflauturnar hefði maður haldið að það væri ekkert stríð í gangi. Skólinn byrjaði 1. september og nemendur sitja í tímum sínum og kíkja svo reglulega niður í sprengjubyrgið í kjallaranum á meðan flauturnar óma,“ lýsir Tanya.

Hægt er að nálgast upplýsingar um viðburðinn á Facebook síðunni hér fyrir neðan.