Úkraínumenn drógu upp fána sinn á Snákaeyju í dag eftir að rússneskir hermenn hörfuðu þaðan. Hart hefur verið barist um yfirráð eyjarinnar síðustu mánuði en Úkraínumenn hafa lýst sig sigurvegara í átökunum.

Snákaeyja er mikilvæg í baráttunni um hafnaraðgengi að Úkraínu en Rússland hefur enn suðurhafnir landsins í herkví. Þannig getur Úkraína ekki enn flutt burt það korn sem situr fast í landinu.

Tyrknesk herskip stöðvuðu rússneska flutningaskipið Zhibek Zholy á sunnudaginn vegna gruns um að það innihéldi stolið korn. Ríkisstjórn Úkraínu hefur ásakað rússneska hermenn um að stela matvælum frá þeim svæðum sem Rússland ræður nú yfir. Enn stendur yfir rannsókn á því hvaðan kornið kemur þar sem það reyndist ekki merkt.

Þá hefur Vladímír Pútín lýst yfir sigri rússneskra hersveita í Lúhansk-héraði í austurhluta Úkraínu. Þetta gerist einum degi eftir að úkraínskir hermenn hörfuðu frá Lysytsjansvk sem var síðasta borgin í héraðinu undir þeirra stjórn. Volodímír Selenskíj, forseti Úkraínu, hefur þó svarið þess eið að borgin muni aftur komast aftur í hendur Úkraínumanna.

„Við munum snúa aftur, þökk sé herkænsku okkar og þar sem við eigum senn von á nýjum og betri vopnum frá Vesturlöndum. Úkraína gefur ekkert upp á bátinn,“ sagði Selenskíj eftir að borgin féll.