Hermaður í þjóðvarðliði Úkraínu myrti fimm öryggisverði og særði fimm til viðbótar í skotárás við flugskeytaverksmiðju hersins. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi en var gómaður af lögreglunni í bæ skammt frá, samkvæmt frétt Al Jazeera.
Árásin átti sér stað snemma í morgun við borgina Dnipro. Verðir við verksmiðjuna voru að fá úthlutuð vopn sín við byrjun vaktarinnar þegar hermaðurinn hóf að skjóta úr Kalashnikov hríðskotariffli á hópinn með þeim afleiðingum að fimm létust og fimm til viðbótar særðust.
Verðirnir sem særðust í árásinni hafa verið fluttir á spítala, einhverjir í lífshættu.
Árásarmaðurinn flúði vettvang en fannst síðar í bænum Pidgorodne, skammt frá Dnipro. Innanríkisráðherra Úkraínu, Denys Monastyrskiy, segir árásarmanninn vera hermaðurinn Artem Ryabchuk.
Monastyrskiy segir atvikið verða rannsakað til hins ítrasta. Ekki er enn vitað hvaða ástæður lágu að baki árásinni.
Miklar ýfingar eru nú milli Rússlands og Úkraínu. Rússland hefur safnað miklu herliði við landamæri Úkraínu en vopnahlésviðræður standa yfir.