Alls voru 59.105 er­lendir ríkis­borgarar skráðir með bú­setu hér á landi þann 1. júlí sl. og fjölgaði þeim um 4.126 frá 1. desember 2021 eða um 7,5%. Þetta kemur fram í gögnum frá Þjóð­skrá.

Úkraínskum ríkis­borgurum hefur fjölgað um 490% frá 1. desember sl. og voru þann 1. júlí sl. 1.410 úkraínskir ríkis­borgarar skráðir í þjóð­skrá. Innrás Rússa í Úkraínu spilar veigamikinn þátt í þessari fjölgun en um 1.300 flóttamenn frá Úkraínu hafa sótt um hæli hér á landi frá áramótum.

Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri vegna komu flóttafólks, sagði í fjölmiðlum fyrr í þessum mánuði að búist væri við allt að fjögur þúsund flóttamönnum frá Úkraínu fyrir lok árs. Hann hvatti jafnframt Íslendingar til að taka vel á móti Úkraínumönnum vegna hrömungana í heimalandinu.

Úkraínumenn sýndu samstöðu fyrir utan Alþingi á meðan Selenskíj hélt ræðu fyrir þing og þjóð.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Pólverjum fjölgar og Dönum fækkar

Á sama tíma hefur einnig verið um­tals­verð fjölgun ríkis­borgara frá Venesúela eða um 57% og eru nú 696 ein­staklingar með venesúelskt ríkis­fang bú­settir hér á landi.

Pólskum ríkis­borgurum fjölgaði á ofan­greindu tíma­bili um 568 ein­stak­linga og um síðustu mánaða­mót rufu þau 22 þúsund manna múrinn og voru 22.020 talsins eða 5,8% lands­manna og rúmenskum ríkis­borgurum hefur fjölgað um 407 eða um 14,8%.

Þá fluttust 11 Danir af landi brott á þessu ári og fækkaði dönskum ríkis­borgurum á Ís­landi þar með um 1,2%.