Úkraínskir flóttamenn sem hafa neyðst til að flýja stríðið inn í innrásarlandið Rússland lýsa erfiðri reynslu sinni af svokölluðum „síunarbúðum“ Rússa.
Í viðtali við Guardian lýsir hin tæplega sextuga Olena frá Maríupol því þegar hún var yfirheyrð af rússneskum hermanni eftir að hafa eytt þremur vikum köld, hungruð og þreytt eftir að hafa neyðst til að sofa á gólfinu. Hermaðurinn, sem var karlmaður, skipaði Olenu að klæða sig úr að ofan til að skoða hvort hún væri með marbletti á öxlunum.
„Marblettir á öxlunum geta verið vísbending um að þú sért leyniskytta,“ segir Olena.
Hún lýsir atvikinu sem því mest niðurlægjandi sem hún hefur þurft að ganga í gegnum síðan hún flúði heimili sitt í Maríupol ásamt 65 ára gamalli systur sinni og sjötugum eiginmanni hennar.
„Ég sagði honum að ég er að verða sextug í ágúst. Hvernig ætti ég að vera leyniskytta?“ Hermaðurinn lét hins vegar ekki segjast og skipaði Olenu að klæða sig úr blússunni.
Ég sagði honum að ég er að verða sextug í ágúst. Hvernig ætti ég að vera leyniskytta?
Ljósmyndaðir, yfirheyrðir og látnir afklæðast
Eftir því sem stríð Rússa í Úkraínu hefur stigmagnast og baráttan um borgir nálægt rússnesku landamærunum í suðri og austri hefur harðnað hafa æ fleiri Úkraínumenn neyðst til þess að flýja tímabundið inn í Rússland á leið sinni til annarra landa.
Þar eru flóttamennirnir neyddir í gegnum áðurnefndar síunarbúðir þar sem þeir eru ljósmyndaðir, yfirheyrðir, fingraför þeirra tekin og leitað í símum þeirra. Mönnum er gert að klæða sig úr öllu nema nærfötum og líkamar þeirra grandskoðaðir í leit að tattúum sem gætu gefið til kynna tengsl við úkraínskar þjóðernishreyfingar. Þá er fólk yfirheyrt varðandi tengsl þeirra við hermenn í úkraínska hernum.
Í grein Guardian kemur að fram að meðan á yfirheyrslu Olenu stóð hafi hún orðið vitni að því þegar verðir yfirheyrðu mann á næsta borði um lyklakippu sem fannst í fórum hans með mynd af úkraínska skjaldarmerkinu. Fjórir verðir hafi lamið manninn hrikalega með kylfum, sparkað í höfuð hans og endað á því að henda honum út í frostið án nokkurrar yfirhafnar.

Bannað að yfirgefa búðirnar
Slíkar síunarbúðir hafa verið settar upp í mörgum bæjum og þorpum í Rússlandi og Austur-Úkraínu en eru algengastar í Alþýðulýðveldinu Donetsk, aðskilnaðarríki sem er hliðhollt Rússum. Úkraínumenn sem flúið hafa Maríupol með rútum enda oft óafvitandi í slíkum búðum þrátt fyrir að þeim hafi verið tjáð að þeir væru á leið til borga undir stjórn Úkraínumanna. Þegar þeir lenda í búðunum er þeim svo bannað að yfirgefa þær.
Ferlið í síunarbúðunum getur endað á tvo vegu. Annað hvort er fólki hleypt í gegn eftir yfirheyrslu og þeim afhent skjal sem staðfestir að þau hafi „staðist“ síunina eða þá að þeim er haldið eftir fyrir frekari yfirheyrslu.
Búðirnar eru yfirleitt settar upp í skólum, samkomuhúsum, íþróttahúsum eða öðrum almenningsrýmum. Aðstæður fólksins sem er gert að vera þar eru yfirleitt nöturlegar og skipulagning léleg. Olenu, systur hennar Tamara og eiginmanni hennar var til að mynda fyrst gert að sofa á gólfinu og síðan á pappakassa. Fyrstu dagana fengu þau eina máltíð á dag en síðan lokuðu Rússarnir fyrir það og sögðu þeim að verða sér úti um mat sjálf.
Krossar úti um allt
Áfangastaður margra Úkraínumanna sem flýja úr suðaustri er Georgía en til þess að komast þangað þurfa þeir að ferðast í gegnum óvinalandið Rússland. Sumir ná ekki á áfangastað og eru handteknir af rússneskum yfirvöldum á miðri leið. Olena náði að lokum til Tíblisi höfuðborgar Georgíu og bíður eftir því að geta snúið aftur til heimalandsins.
„Guðdóttir mín er enn í Maríupol og sendi mér myndir af krossum sem hefur verið stungið niður í jörðina út um allt. Grafir hafa meira að segja verið teknar í húsagörðum. Mig langar að fara heim en þó einhvers staðar í Úkraínu sem er ekki undir stjórn Rússa,“ segir hún.