Úkraínskir flótta­menn sem hafa neyðst til að flýja stríðið inn í inn­rásar­landið Rúss­land lýsa erfiðri reynslu sinni af svo­kölluðum „síunar­búðum“ Rússa.

Í við­tali við Guar­dian lýsir hin tæp­lega sex­tuga Ol­ena frá Maríu­pol því þegar hún var yfir­heyrð af rúss­neskum her­manni eftir að hafa eytt þremur vikum köld, hungruð og þreytt eftir að hafa neyðst til að sofa á gólfinu. Her­maðurinn, sem var karl­maður, skipaði Ol­enu að klæða sig úr að ofan til að skoða hvort hún væri með mar­bletti á öxlunum.

„Mar­blettir á öxlunum geta verið vís­bending um að þú sért leyni­skytta,“ segir Ol­ena.

Hún lýsir at­vikinu sem því mest niður­lægjandi sem hún hefur þurft að ganga í gegnum síðan hún flúði heimili sitt í Maríu­pol á­samt 65 ára gamalli systur sinni og sjö­tugum eigin­manni hennar.

„Ég sagði honum að ég er að verða sex­tug í ágúst. Hvernig ætti ég að vera leyni­skytta?“ Her­maðurinn lét hins vegar ekki segjast og skipaði Ol­enu að klæða sig úr blússunni.

Ég sagði honum að ég er að verða sex­tug í ágúst. Hvernig ætti ég að vera leyni­skytta?

Ljós­myndaðir, yfir­heyrðir og látnir af­klæðast

Eftir því sem stríð Rússa í Úkraínu hefur stig­magnast og bar­áttan um borgir ná­lægt rúss­nesku landa­mærunum í suðri og austri hefur harðnað hafa æ fleiri Úkraínu­menn neyðst til þess að flýja tíma­bundið inn í Rúss­land á leið sinni til annarra landa.

Þar eru flótta­mennirnir neyddir í gegnum áður­nefndar síunar­búðir þar sem þeir eru ljós­myndaðir, yfir­heyrðir, fingra­för þeirra tekin og leitað í símum þeirra. Mönnum er gert að klæða sig úr öllu nema nær­fötum og líkamar þeirra grand­skoðaðir í leit að tattúum sem gætu gefið til kynna tengsl við úkraínskar þjóð­ernis­hreyfingar. Þá er fólk yfir­heyrt varðandi tengsl þeirra við her­menn í úkraínska hernum.

Í grein Guar­dian kemur að fram að meðan á yfir­heyrslu Ol­enu stóð hafi hún orðið vitni að því þegar verðir yfir­heyrðu mann á næsta borði um lykla­kippu sem fannst í fórum hans með mynd af úkraínska skjaldar­merkinu. Fjórir verðir hafi lamið manninn hrika­lega með kylfum, sparkað í höfuð hans og endað á því að henda honum út í frostið án nokkurrar yfir­hafnar.

Drengur klifrar á rússneskum skriðdreka sem sprengdur var af úkraínska hernum í miðbæ Kænugarðs.
Fréttablaðið/EPA

Bannað að yfir­gefa búðirnar

Slíkar síunar­búðir hafa verið settar upp í mörgum bæjum og þorpum í Rúss­landi og Austur-Úkraínu en eru al­gengastar í Al­þýðu­lýð­veldinu Do­netsk, að­skilnaðar­ríki sem er hlið­hollt Rússum. Úkraínu­menn sem flúið hafa Maríu­pol með rútum enda oft ó­af­vitandi í slíkum búðum þrátt fyrir að þeim hafi verið tjáð að þeir væru á leið til borga undir stjórn Úkraínu­manna. Þegar þeir lenda í búðunum er þeim svo bannað að yfir­gefa þær.

Ferlið í síunar­búðunum getur endað á tvo vegu. Annað hvort er fólki hleypt í gegn eftir yfir­heyrslu og þeim af­hent skjal sem stað­festir að þau hafi „staðist“ síunina eða þá að þeim er haldið eftir fyrir frekari yfir­heyrslu.

Búðirnar eru yfir­leitt settar upp í skólum, sam­komu­húsum, í­þrótta­húsum eða öðrum al­mennings­rýmum. Að­stæður fólksins sem er gert að vera þar eru yfir­leitt nötur­legar og skipu­lagning lé­leg. Ol­enu, systur hennar Tamara og eigin­manni hennar var til að mynda fyrst gert að sofa á gólfinu og síðan á pappa­kassa. Fyrstu dagana fengu þau eina mál­tíð á dag en síðan lokuðu Rússarnir fyrir það og sögðu þeim að verða sér úti um mat sjálf.

Krossar úti um allt

Á­fanga­staður margra Úkraínu­manna sem flýja úr suð­austri er Georgía en til þess að komast þangað þurfa þeir að ferðast í gegnum ó­vina­landið Rúss­land. Sumir ná ekki á á­fanga­stað og eru hand­teknir af rúss­neskum yfir­völdum á miðri leið. Ol­ena náði að lokum til Tí­blisi höfuð­borgar Georgíu og bíður eftir því að geta snúið aftur til heima­landsins.

„Guð­dóttir mín er enn í Maríu­pol og sendi mér myndir af krossum sem hefur verið stungið niður í jörðina út um allt. Grafir hafa meira að segja verið teknar í húsa­görðum. Mig langar að fara heim en þó ein­hvers staðar í Úkraínu sem er ekki undir stjórn Rússa,“ segir hún.