Úkraínsk vöruflutningaflugvél brotlenti í norðurhluta Grikklands í gærkvöldi með farm af skotfærum innanborðs. Allir átta meðlimir áhafnarinnar létust í brotlendingunni.

Vélin var á leið frá Serbíu til Bangladess með skotfærin. Að sögn sjónarvotta hrapaði vélin í ljósum logum nálægt borginni Kavala.

Samkvæmt frétt tyrkneska ríkismiðilsins Anadolu Ajansı fannst hvítt duft í kringum flak vélarinnar og rannsóknir standa yfir á því hvað var um borð.

Nebojša Stefanović, varnarmálaráðherra Serbíu, staðfesti að flugvélin hefði verið að flytja farm af vopnum sem Serbar hefðu selt bangladesska varnarmálaráðuneytinu. Vopnin hafi verið frá serbneska vopnaframleiðandanum Valir.

Flugvélin var undir umsjá úkraínska flugfélagsins Meridian en Denys Bohdanovytsj, framkvæmdastjóri félagsins, sagði slysið ekki tengjast styrjöldinni í Úkraínu á neinn hátt.