Fólk er slegið og það er uggandi um sinn hag, enda átti það ekki von á því að af innrásinni yrði og hvað þá að hlutirnir gengju jafn hratt fyrir sig og raun ber vitni,“ segir Grímur Axels­son, um­boðs­maður Kreativ Dental í Búda­pest. „Í rauninni er þetta eitthvað sem enginn bjóst við – og þar er helsta sjokkið komið,“ bætir hann við.

Hann segir að þó að stemningin á götum Búdapest sé svo til venjuleg hafi Ungverjar engu að síður fundið fyrir því síðasta hálfan annan mánuðinn að óróinn á meðal alls almennings í Úkraínu hafi farið stigvaxandi.

„Það sést best á því að hótel og gistiheimili hér í Ungverjalandi hafa verið að fyllast af úkraínskum ungmennum sem vilja komast hjá herskyldu heima fyrir, en augljóst er að foreldrar þeirra hafa í stríðum straumi sent þau úr landi,“ segir Grímur.

Grímur Axels­son, um­boðs­maður Kreativ Dental í Búda­pest
Mynd/Aðsend

Nú er aftur á móti búið að loka landamærunum milli Ungverjalands og Úkraínu – og regluverk landsins gagnvart flóttamönnum breyttist þar að auki snarlega eftir strauminn frá Sýrlandi á síðustu árum, á þann veg að hamla för þeirra í ríkari mæli inn í landið.

„Núna þurfa úkraínskir flóttamenn sem vilja komast til Ungverjalands að vera með uppáskrifaða pappíra frá sendiráði Ungverjalands í Kænugarði, ella komast þeir ekki yfir landamærin,“ segir Grímur, „og því má ætla að fjölmargir komi að lokuðum hliðum á næstu dögum og vikum, sem aftur mun þýða að pressan eykst á að Ungverjar létti á reglum um komu flóttamanna til landsins.“

Grímur hefur búið um árabil í Búdapest ásamt ungverskri konu sinni og tveimur börnum og hann segir það vera mikinn létti meðal landsmanna á þessum tímum að vera bæði innan vébanda ESB og NATO. „Þú getur rétt ímyndað þér,“ segir hann við blaðamann. „Hér man fólk tímana tvenna, en öryggistilfinningin núna er allt önnur og miklu meiri en nokkru sinni.“