Farþegaþota frá Úkraínu sem hafði yfir 170 manns innanborðs brotlenti í Íran rétt fyrir fjögur í nótt. Samkvæmt íranska Rauða hálfmánanum eru engar líkur taldar á að fólk hafi komist lífs af. BBC segir frá.

Samvæmt írönskum fjölmiðlum brotlenti vélin rétt eftir flugtak frá Imam Khomeini-flugvellinum í Teheran, höfuðborg Írans. Vélin var af gerðinni Boeing 737 og var á leið til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu.

Úkraínsk stjórnvöld segjast vera að setja saman viðbragðshóp til að rannsaka brotlendinguna og Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, sendi innilegar samúðarkveðjur til ættingja og vina þeirra sem létust.

Viðbragðsaðilar voru sendir á vettvang en yfirmaður Rauða hálfmánans sagði írönskum fjölmiðlum að það væri ómögulegt að einhver hefði lifað brotlendinguna af.

Samkvæmt forsætisráðherra Úkraínu, Oleksiy Honcharuk, voru 168 farþegar og níu áhafnarmeðlimir um borð.

Það er óvíst hvort einhver tengsl séu á milli brotlendingarinnar og spennunnar á milli Íran og Bandaríkjanna.