Rússneski herinn réðst inn í Úkraínu þann 24. febrúar síðastliðinn. Tugþúsundir hafa látið lífið og milljónir manna flúið heimili sín. Stríðið mun líklega halda áfram að hafa áhrif á komandi kynslóðir.

Í dag eru liðnir níu mánuðir frá því að Vladímír Pútín fyrirskipaði sína „sérstöku hernaðaraðgerð“ og reyndi að hertaka Úkraínu. Hættan á átökum hafði vofað yfir mánuðum saman og höfðu meðal annars tugþúsundir rússneskra hermanna safnast við landamæri Úkraínu skömmu fyrir innrás.

Á mánudaginn voru liðin níu ár frá því að mótmælin byrjuðu á Maidan-torginu í Kænugarði. Forseti landsins á þeim tíma, Viktor Viktor Janúkovitsj, hafði ákveðið að hætta við samning um nánara samstarf Úkraínu við Evrópusambandið og undirritaði þess í stað samstarfssamning við Rússland. Mikil mótmæli brutust út víðs vegar um landið á meðal Evrópusinnaðra Úkraínumanna og nokkrum mánuðum síðar átti sér stað raunveruleg bylting þar sem Janúkovitsj var steypt af stóli og flúði land.

Vladímír Pútín leit á þetta sem valdarán, skipulagt af Bandaríkjunum og vesturveldunum og í kjölfarið var rússneski herinn sendur á Krímskaga sem var síðan innlimaður inn í rússneska sambandsríkið eftir atkvæðagreiðslu. Rússneski herinn var einnig sendur til austurhluta Úkraínu til að styðja við bakið á úkraínskum aðskilnaðarsinnum í Donbas-héraðinu. Þessir atburðir mörkuðu upphaf hernaðardeilna milli Rússlands og Úkraínu og stríðsins sem geisar í dag.

Upprunalega virtist sem svo að stjórnvöld í Rússlandi hafi búist við litlum sem engum mótþróa frá úkraínska hernum og að aðgerðir rússneska hersins myndu ganga jafn hratt og greiðilega fyrir sig og árið 2014. Áætlað var að forseti landsins og fyrrum grínistinn, Volodymyr Zelenskyj, myndi flýja land og úkraínska þjóðin myndi þar með falla í hendur Mosku.

Níu mánuðum síðar er stríðið enn í gangi og ekki er útlit fyrir að átökum muni linna á næstu misserum. Tugþúsundir hafa látið lífið og fleiri milljónir hafa flúið heimili sín. Pólitíska landslagið um heim allan hefur breyst og í fyrsta sinn í áratugi eru þjóðarleiðtogar daðrandi við þá hugmynd að nota kjarnorkuvopn gegn andstæðingum sínum.

Erfitt hefur reynst að sannreyna þær tölur um raunverulegt mannfall í þessu stríði þar sem mögulegt er að lagfæra slíkar staðreyndir í áróðursskyni. En ljóst er að efnahagslegur kostnaður stríðsins var rússneskum stjórnvöldum mun meiri en þau gerðu ráð fyrir.

Vestræn ríki voru fljót að beita efnahagsþvingunum og fyrirtæki á borð við Spotify, Coca-Cola, Starbucks og IKEA hafa öll yfirgefið landið. FIFA tók einnig ákvörðun um að banna Rússlandi að keppa í heimsmeistaramótinu í Katar í ár og veitingastaðurinn McDonald‘s, sem varð nokkurs konar tákn nýs upphafs þegar hann opnaði í Mosku undir lok kalda stríðsins, er farinn líka.

Stríðið færði sig einnig nýlega um set þegar tveir létust eftir að eldflaug lenti í pólskum bæ skammt frá landamæri Úkraínu. Talsmenn NATO og pólsku ríkisstjórnarinnar sögðu að sprengingin hefði verið slys sem kom að öllum líkindum frá úkraínsku loftvarnakerfi. Atvikið var engu að síður lítið alvarlegum augum þar sem árás á eitt NATO ríki er túlkað sem árás á þau öll.

Afleiðingar stríðsins munu einnig halda áfram að hafa áhrif á komandi kynslóðir. Samkvæmt samtökunum Save the Children þá hafa 900 börn að meðaltali fæðst á dag í Úkraínu í gegnum stríðið sem hefur haft alvarleg áhrif á heilsu mæðra og ungbarna. Þar að auki hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin greint frá árásum á 703 heilsugæslustöðvar um allt landið.

Hans Kluge, forstjóri Evrópu-skrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir að þær heilsugæslustöðvar sem ekki hafa orðið fyrir árásum séu engu að síður í vandræðum sökum árása á orkuinnviði Úkraínu. „Fæðingardeildir þurfa hitakassa, blóðbankar þurfa kæliskápa og gjörgæsludeildir þurfa öndunarvélar,“ segir Kluge og bætir við allir þurfi á orku að halda.

Íbúi í Kherson horfir yfir eyðilagða verslunarmiðstöð eftir rúmlega átta mánaða umsátur. Fréttablaðið/EPA