Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, kynnti formlega í gær ákvörðun Þjóðverja um að senda fjórtán af hinum fullkomnu Leopard 2 A6 skriðdrekum sínum til Úkraínu.

Samhliða sagði Scholz Þjóðverja samþykkja að aðrar þjóðir sendi einnig slíka skriðdreka til Úkraínu en slíkt er háð leyfi þeirra sem framleiðanda skriðdrekanna. Þjóðverjar myndu til að byrja með senda fjórtán skriðdreka og að markmiðið sé að senda samtals 88 skriðdreka til Úkraínu þegar sendingar frá samstarfsþjóðum eru meðtaldar. Svarar sá fjöldi til tveggja herfylkja.

„Þessi ákvörðun er í samræmi við þekkta stefnu okkar um að styðja Úkraínu eftir bestu getu,“ sagði Scholz eftir ríkisstjórnarfund í Berlín. Allt væri þetta gert í samráði við bandalagsþjóðir Þjóðverja.

Fram kemur í umfjöllun spænska blaðsins El País að Þjóðverjar hafi eftir langvarandi þrýsting tekið þessa ákvörðun, í kjölfar þess að bandarískir embættismenn sögðu að gert hefði verið bráðabirgðasamkomulag um að senda skriðdreka af gerðinni M1 Abrams til Úkraínu til að aðstoða heimamenn í að hrinda innrás Rússa, sem hófst fyrir tæpu ári.

Með því að Bandaríkin sendi einnig skriðdreka úr sínu vopnabúri vonist Þjóðverjar til að dreifa áhættunni af gagnráðstöfunum Rússa. Vitnar El País til hernaðarsérfræðingsins Ekkehard Brose sem kveður þátttöku Bandaríkanna hafa verið grundvallaratriði svo Evrópa myndi ekki standa ein frammi fyrir kjarnorkuvopnaógn frá Rússlandi.

Fréttablaðið/Graphic News

Sálfræðilega séð sagði Brose það einnig hafa verið erfitt fyrir Þjóðverja að senda skriðdreka sína austur á bóginn til átaka við Rússa enn á ný og vísaði hann þá til heimsstyrjaldarinnar síðari og ábyrgðar Þjóðverja á þeim hörmungum.

Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, var ómyrkur í máli í gær og sagði fyrirætlanir Þjóðverja og Bandaríkjamanna vera hörmulegar.

„Ég er sannfærður um að margir sérfræðingar skilji fáránleika þessarar hugmyndar,“ sagði Peskov við fréttamenn. Aðalatriðið væri að menn væru augljóslega að ofmeta áhrif þessarar sendingar á hernaðarmátt Úkraínumanna. „Þessir skriðdrekar munu brenna niður, alveg eins og allir hinir – nema þeir kosta mikið og það mun enda á herðum skattborgara í Evrópu,“ boðaði talsmaðurinn.

Nýlegar skoðanakannanir í Þýskalandi sýna að almenningur í Þýskalandi skiptist í fylkingar gagnvart því að senda Leopard skriðdrekana til Úkraínu.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, fagnaði ákvörðun Þjóðverja. Hún væri stórt skref í að stöðva Rússa. „Saman eru við sterkari“ skrifaði Morawiecki í færslu á Twitter.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.
Fréttablaðið/Getty