Úkraínskum her­mönnum hefur tekist að endur­heimta Snáka­eyju (e. Sna­ke Is­land) frá Rússum. Eyjan er hernaðar­lega mikil­væg sökum stað­setningar sinnar í Svarta­hafinu, sunnan við strönd borgarinnar Ó­desu.

Sam­kvæmt frétta­miðlinum The Guar­dian gæti Rússum reynst erfitt að gera land­lægar á­rásir á suður­strönd Úkraínu án eyjunnar.

Varnar­mála­ráðu­neyti Rúss­lands heldur því fram að herinn hafi verið viljandi fjar­lægður af eyjunni þar sem hann hafi klárað verk­efni sín þar. Flutningur hersins hafi verið gerður til að út­flutningur korn­vara yrði mögu­legur á ný frá úkraínskum höfnum í Svarta­hafi.

Að sögn ráðu­neytisins er það hluti af sam­komu­lagi sem náðist við Sam­einuðu þjóðirnar að skapa mann­úðar­göng fyrir út­flutning korn­vara.

Hernaðar­yfir­völd í Úkraínu segja hins vegar að rúss­neskum her­mönnum hafi verið gert að flýja eyjuna um nóttina á hrað­bátum. Í yfir­lýsingu frá syðri her­sveitum Úkraínu segir að enn heyrist í sprengingum og að eyjan sé undirlögð af reyk, sem myndi gefa til kynna að enn væri barist.

Rúss­neski herinn náði eyjunni fyrst í febrúar en her­mennirnir sem vörðu eyjuna urðu frægir fyrir að segja rúss­nesku her­skipinu að „fokka sér“. Það hefur síðan orðið að einu vin­sælasta slag­orði Úkraínu á meðan á stríðinu stendur.