Úkraínskum hermönnum hefur tekist að endurheimta Snákaeyju (e. Snake Island) frá Rússum. Eyjan er hernaðarlega mikilvæg sökum staðsetningar sinnar í Svartahafinu, sunnan við strönd borgarinnar Ódesu.
Samkvæmt fréttamiðlinum The Guardian gæti Rússum reynst erfitt að gera landlægar árásir á suðurströnd Úkraínu án eyjunnar.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands heldur því fram að herinn hafi verið viljandi fjarlægður af eyjunni þar sem hann hafi klárað verkefni sín þar. Flutningur hersins hafi verið gerður til að útflutningur kornvara yrði mögulegur á ný frá úkraínskum höfnum í Svartahafi.
Að sögn ráðuneytisins er það hluti af samkomulagi sem náðist við Sameinuðu þjóðirnar að skapa mannúðargöng fyrir útflutning kornvara.
Hernaðaryfirvöld í Úkraínu segja hins vegar að rússneskum hermönnum hafi verið gert að flýja eyjuna um nóttina á hraðbátum. Í yfirlýsingu frá syðri hersveitum Úkraínu segir að enn heyrist í sprengingum og að eyjan sé undirlögð af reyk, sem myndi gefa til kynna að enn væri barist.
Rússneski herinn náði eyjunni fyrst í febrúar en hermennirnir sem vörðu eyjuna urðu frægir fyrir að segja rússnesku herskipinu að „fokka sér“. Það hefur síðan orðið að einu vinsælasta slagorði Úkraínu á meðan á stríðinu stendur.