Uhunoma Osayomore liggur nú þungt haldinn á bráðageðdeild Landspítalans eftir að Kærunefnd útlendingamála staðfesti síðasta föstudag eldri ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Uhunoma hefur verið á Íslandi í 18 mánuði.

Lögmaður hans, Magnús D. Norðdahl, mun krefjast ógildingar á úrskurðinum í Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið verður þingfest þann 20. apríl en líklegt er að Uhunoma verði vísað úr landi áður en niðurstaða kemur í málinu

Í yfirlýsingu frá fimm stuðningsmönnum Uhunoma kemur fram að samkvæmt úrskurðinum hafi hann 30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Ef hann gerir það ekki verður honum vísað úr landi með valdi. Úrskurðurinn var kveðinn upp tveimur dögum áður en 18 mánuðir voru liðnir frá því að hann kom til Íslands.

Í yfirlýsingunni kemur fram að kærunefnd meti sögu Uhunoma sem „ótrúverðuga“ og að aðstæður í heimalandi hans, Nígeríu, séu ekki nægilega „slæmar“ til að það sé hægt að réttlæta það að veita honum annaðhvort alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á Íslandi.

„Uhunoma er 21 árs og hefur verið á flótta og vergangi frá því hann var 14 ára gamall, eftir að faðir hans myrti móður hans og yngri systir hans lést í slysi. Síðan þá hefur hann orðið fyrir barðinu á vinnumansali, ofbeldi, kynferðisofbeldi, og ítrekað orðið heimilislaus svo eitthvað sé nefnt. Í heil sjö ár hefur líf hans verið ein stór óvissa full af lífshættu, martröðum og almennum hryllingi,“ segir í yfirlýsingunni.

Samræmist ekki stefnu yfirvalda að brottvísa þolanda mansals

Farið er yfir sögu Uhunoma í yfirlýsingunni en mikið var fjallað um mál hans í fjölmiðlum fyrir um tveimur mánuðum og yfirvöldum í kjölfarið afhentar 47 þúsund undirskriftir honum til stuðnings.

Uhunoma er, eins og áður hefur komið fram, þolandi mansals og fram kemur í yfirlýsingunni að hann hafi undanfarnar vikur leitað sér aðstoðar hjá Stígamótum og að til kærunefndar hafi fylgt skýrsla frá þeim sem hafi stutt máls hans og frásögn. Þau segja að það hafi verið Uhunoma mikið áfall þegar úrskurður kærunefndar lá fyrir og að í kjölfarið hafi hann verið lagður inn á bráðageðdeild Landspítalans í mjög slæmu ástandi.

„…illa haldinn af þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun auk þess sem talin var hætta á því að hann veitti sjálfum sér skaða,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar er það gagnrýnt að starfsmenn kærunefndar sem undirrita úrskurðinn sinni ýmsum mannúðarstörfum fyrir barnavernd og Bjarkarhlíð sem þau telja að geri ómannúðlega afstöðu þeirra óskiljanlega.

Þau benda á að Uhunoma eigi nú íslenska fjölskyldu og bíði þess bara að fá atvinnuleyfi svo hann geti unnið. Hann sé kominn með vinnu.

„Hann á sér aðeins þann draum að fá að lifa í friði á Íslandi með fólkinu sem hann hefur kynnst og elskar hann. Með tíð og tíma langar hann til að mennta sig,“ segir í yfirlýsingunni.

Þau velta því fyrir sér að lokum, nú í aðdraganda alþingiskosninga, hvað þurfi til að stjórnvöld hlusti á og virði vilja þjóðarinnar í þessum málum.

„Það samræmist ekki yfirlýstri stefnu stjórnvalda að vísa úr landi ungum þolanda mansals, sem hefur verið fylgdarlaus á flótta frá 14 ára aldri.

Því beinum við orðum okkar til dómsmálaráðherra, forsætisráðherra og ríkisstjórnar Íslands: Bjargið Uhunoma!“

Undir yfirlýsinguna skrifa þau Tómas Manoury , Hallgrímur Helgason, Morgane Priet-Mahéo, Ívar Pétur Kjartanssson og Magnús Tryggvason Eliassen