Hátt í þrjú þúsund manns hafa nú skrifað undir á­skorun til stjórn­valda þar sem þess er krafist að yfir­völd bregðist við vanda Barna- og ung­linga­geð­deild Land­spítalans en trans teymi deildarinnar var lagt niður um ára­mótin. Sam­tökin Trans vinir, Trans Ís­land og Sam­tökin 78 koma til með að af­henda heil­brigðis­ráð­herra, for­stjóra Land­spítalans og land­lækni undir­skriftalistana á morgun.

Birna Björg Guð­munds­dóttir, einn stofn­enda Trans Vina, hags­muna­sam­tök for­eldra og að­stand­enda trans barna og ung­menna á Ís­landi, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að með á­skoruninni sé verið að krefjast aukins fjár­magns og að nýtt trans teymi verði skipað af for­stjóra Land­spítalans sem fyrst.

„Þeirra skýring hjá BUGL er bara að það vanti fjár­magn. For­stjóri Land­spítalans er að brjóta lög með því að hafa teymið ekki starf­rækt,“ segir Birna og vísar til laga um kyn­rænt sjálf­ræði sem sam­þykkt voru á Al­þingi síðasta sumar. „Við ætlum líka að fara til land­læknis þar sem það er hans að hafa eftir­lit með því að for­stjóri Land­spítalans sé að vinna sína vinnu.

Birna segir Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans brjóta lög með því að skipa ekki nýtt trans teymi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hátt í fimmtíu trans börn á BUGL

Að sögn Birnu eru um 500 börn á BUGL og af þeim eru um tíu prósent trans en sí­fellt fleiri bíði eftir með­ferð. „Þau eru bara í ei­lífri bið og þetta setur börnin og ung­lingana sem eru þarna inni, sem eru að bíða eftir að takast á við sinn vanda, þetta setur þau náttúru­lega í svo­lítinn kvíða­hnút sem og fjöl­skyldur þeirra þar sem við fáum ekki svör,“ segir Birna.

„Við viljum að heil­brigðis­ráð­herra fái fjár­magn sem verði eyrna­merkt BUGL fyrir trans teymið þannig það sé hægt að hafa fólk sem er fag­lært á þessu sviði,“ segir Birna en hún segist hafa heyrt af starfs­mönnum teymisins sem hafa hætt vegna of mikils á­lags og að fáir starfs­menn séu til staðar. „Það þarf líka sér­fræðinga sem kunna að tala við þessi börn þar sem það getur ekki hver sem er talað við þau.“

Hún bætir við að reynt sé að for­gangs­raða og að tekið sé inn eftir getu en að biðin sé enn mjög löng fyrir marga. Þá hafi á­standið mikil á­hrif á for­eldra barnanna sem hafa fengið lítið um svör. „For­eldrarnir fengu hálf­gert á­fall líka, þetta er lagt niður og hvað bíður okkar svo? Hver er þá staðan? Hvert leitum við?“

Þess er krafist að fjármagn verði eyrnamerkt trans teymi BUGL.

Finna ákveðinn meðbyr

Að sögn Birnu ætluðu þau að vera búin að af­henda undir­skriftalistana fyrr en það hafi tafist vegna máls Maní, sau­tján ára trans stráks sem lagður var inn á BUGL fyrr í mánuðinum. Verið er að fara yfir allar þær undir­skriftir sem bárust og segir Birna að sú tala sem hún hefur fengið hafi verið vel yfir þrjú þúsund en fara eigi eftir tví­tekningar.

„Okkur finnst vera svo­lítill með­byr með okkur og okkar mál­efnum og þess vegna viljum við endi­lega klára að ýta á þetta,“ segir Birna að lokum. Hópurinn mun stoppa hjá heil­brigðis­ráð­herra klukkan 10:15, hjá for­stjóra Land­spítalans klukkan 10:35 og munu þau enda hjá land­lækni klukkan 10:55.