Íslenska lögreglan getur ekki sektað Þorgrím Þráinsson, starfsmann KSÍ, fyrir brot á sóttvarnalögum heldur er það ákvörðun UEFA, samkvæmt svörum lögreglunnar.

Þorgrímur virti ekki tveggja metra regluna og bar ekki grímu þegar hann arkaði inn á leikvöllinn eftir sigur á Rúmenum til að knúsa mann og annan, meðal annars fyrirliða landsliðsins, Aron Einar Gunnarsson. Hann greindist svo með COVID-19 og fóru tólf starfsmenn í kjölfarið í sóttkví, meðal annars landsliðsþjálfararnir. Þeir fengu þó leyfi til að rjúfa sóttkví til að horfa á leikinn gegn Belgum, sem Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn baðst afsökunar á. Sagðist hafa farið langt út fyrir valdsvið sitt og mun hann ekki koma að fleiri ákvörðunum um íþróttir.

Í svari lögreglunnar segir enn fremur að reglur UEFA nái til leikmanna og starfsmanna og gildi líka eftir að leik er lokið, það er uns leikmenn og starfsmenn hafa yfirgefið völlinn og fara inn í vallarhúsið.

Brot á þeim reglum kunna að varða sektum, sem UEFA beitir, segir í svari lögreglunnar.

Lögreglan hafði þó ekki neina yfirsýn yfir sótthólf KSÍ, hvorki á téðum landsleik gegn Rúmenum í umspilinu um að komast á Evrópumótið né gegn Dönum og Belgum í Þjóðadeildinni. „Þess má geta að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði ekki yfirsýn yfir sótthólf KSÍ, né þær undanþágur sem heilbrigðisyfirvöld gáfu út fyrir þennan landsleik eða aðra sem hér hafa farið fram nýverið,“ segir í svörum lögreglunnar við fyrirspurn Fréttablaðsins.