Hrafn Jökulsson rithöfundur er einn þeirra sem nýverið flutti lögheimili sitt í Árneshrepp. Hrafn greinir frá því á Facebook síðu sinni í kvöld að lögreglan á Hólmavík hafi mætt heim til barnsmóður hans fyrr í dag til að yfirheyra hana um búsetu hans. Henni var tilkynnt að hún hefði réttarstöðu vitnis og var hún spurð hvar hann ætti heima og hvort þau væru tekin saman á ný.

„Lögreglan á Hólmavík var send til Árneshrepps í dag og fór þar um á skransandi hraða og yfirheyrði íbúa um hverjir ættu heima hvar og hverjir ekki og gekk jafnvel svo langt að spyrja fólk um þeirra dýpstu einkamál. Ég hugsa að það sem gerðist í dag sé eitt það stærsta hneyksli í sögunni hvernig lögreglunni hefur verið misbeitt á Íslandi. Það að lögreglan skuli vera kölluð út að frumkvæði þjóðskrár, að frumkvæði hagsmunaaðila sem eru greinilega borgaðir af erlendum fjárfestum og skuli vera send þessara erinda til að framkvæma einkanjósnir um fólk finnst mér fáheyrt og hefur aldrei verið gert. Það eru ótal dæmi um fólk sem hefur verið oddviti í einu sveitarfélagi og búið í öðru en nú er lögreglan kölluð út, þannig ég spyr „hvað býr að baki? Hvað eru hagsmunirnir miklir?“ segir Hrafn í samtali við Fréttablaðið í kvöld.

Aðspurður segir Hrafn að hann sjálfsögðu muni bregðast við þessu. „Ég get hvorki setið undir því að einhver galinn maður hóti mér og mínum rottueitri, eða að ég eigi það yfir mér að lögreglan veki mig upp á morgnana til að spyrja mig hvar ég eigi heima. Í hvaða andskotans samfélagi eigum við þá heima,“ spyr Hrafn.

Barnsmóðir Hrafns staðfesti í símtali við Fréttablaðið að lögreglan hefði komið til hennar í dag en vildi ekki tjá sig meira um málið að svo stöddu. 

Færslu Hrafns má sjá hér að neðan. Hún er birt með hans leyfi. 

„Þú hótar ekki dóttur minni með rottueitri“

Þegar hann segir að sér hafi verið hótað rottueitri á hann við ummæli eiginmanns oddvita Árneshrepps um að farið verði með rottueitur að Dröngum, þar sem Sveinn Kristinsson, harður virkjunarandstæðingur, hefur búskap. Hrafn segir að honum hafi ekki þótt ummæli eiginmanns oddvita um að eitra fyrir þeim með rottueitri smekkleg.

„Hann má byrla mér hvaða rottueitri sem hann getur, en ekki dóttur minni. Hún á heima í þessu húsi. Þannig þetta er orðið mjög persónulegt. Þú hótar ekki dóttur minni með rottueitri,“ segir Hrafn og segir að hann taki þessu mjög alvarlega.

Sjá einnig: Eiginmaður oddvitans stingur upp á grisjun íbúa með rottueitri

Hrafn birti síðar í kvöld færslu þar sem hann birtir skilaboð frá Ásbirni Þorgilssyni sem hann telur gefa til kynna að rottueitrið hafi verið ætlað honum, dóttur hans og fleirum. Færsluna má sjá hér að neðan, hún er einnig birt með hans leyfi. 

Íbúar klofnir í tvær fylkingar

Lögheimilisskráningar í Árneshreppi hafa verið í umræðunni undanfarna daga en þeim hefur fjölgað mikið í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Íbúar eru klofnir í tvær fylkingar vegna fyrirhugaðrar virkjunar sem þar er stefnt á að byggja. Eftir að tilkynnt var um lögheimilisskráningarnar sagði Persónuvernd að þau myndu rannsaka málið. 

Sjá einnig: Íbúum fjölgað um 39 prósent

Hrafn segir að það sé þrátt fyrir að hann hafi nýlega flutt lögheimili sitt þá hafi sá flutningur verið lögnu ákveðinn. „Það er fullkomlega fáránlegt að ég þurfi að rökstyðja hvar ég eigi heima. Eftir að Kristinn birti listann á heimasíðu sinni hafa blaðamenn hringt í mig stöðugt, en það er ekkert leyndarmál hvar ég á heima. Ég er Strandamaður og kom hingað fyrst fyrir 40 árum. Ég á ekki að þurfa að rökstyðja eitt eða neitt fyrir neinum, og allra síst fyrir lögreglunni. Ég á ekki að þurfa að búast við því að lögreglan komi skransandi inn malarvegina í Árneshreppi að yfirheyra fjölskyldu mína um hvar ég hafi vaknað þann morguninn. Við erum þá komin í algjörlega mjög undarlegt þjóðfélagsástand þegar þetta er staðan,“ segir Hrafn.

Hann segir lögregluna hafa verið á sveimi í Árneshreppi í dag og um hafi eflaust verið að ræða eftirminnilegan dag fyrir lögregluna á Hólmavík. Hann segir að það sé embættum til skammar hvernig þeim hefur verið misbeitt síðust daga í kjölfar frétta að lögheimilisflutningum og veltir því fyrir sér hvað búi að baki.

„Það er lögreglunni, sýslumanni  og þjóðskrá til skammar hvernig þessum embættum hefur verið á síðustu dögum misbeitt. Þessum silalegu embættum sem hafa ekki hreyft sig árum saman í neinum málum sem varða nákvæmlega það sem þetta snýst um núna, hvernig þau eru komin með adrenalínið á það stig að löggan brunar á 90 norður í Árnershrepp, þá liggur eitthvað mikið undir,“ segir Hrafn að lokum.