Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 20. janúar 2023
22.45 GMT

„Ég get ekki gert börnunum mínum það að mæta í myndatöku þegar ég loksins kem heim í helgarfrí,“ segir Jóhanna þegar við tölum fyrst saman í síma með mögulegt viðtal í huga.

Jóhanna hefur undanfarna mánuði verið við æfingar á söngleiknum Chicago sem frumsýndur verður um næstu helgi hjá Leikfélagi Akureyrar. Þar hefur hún því búið virka daga með yngsta barninu, átta mánaða gamalli dóttur sem fékk nafn móður sinnar, Jóhanna Guðrún. Eldri börnin, sjö og þriggja ára, eru í góðum höndum sunnan heiða og helgarnar því eðli málsins samkvæmt helgaðar samveru móður og barna.

„Elsta stelpan er byrjuð í skóla svo það var ekki hægt að fara með þau öll norður. Ég flýg heim á föstudögum og er með þeim um helgar og sem betur fer er stór her af fólki í kringum mig. En þau verða fegin að fá mömmu sína alveg til baka,“ segir Jóhanna sem sér nú fyrir endann á æfingaferlinu og þá snýst rútínan við og hún flýgur norður um helgar til að sýna.

„Þá tek ég bara djúníor með,“ segir hún og á við yngstu dótturina sem hjalar í fangi hennar á meðan við tölum saman.

„Hún er svo lítil að hún þarf að fá að vera með.“

Jóhanna hér í hlutverki Velmu í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á söngleiknum Chicago. Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Við látum þetta ganga


Jóhanna er í sambúð með Ólafi Friðriki Ólafssyni og eiga þau dótturina saman.

„Hann hefur líka verið með mér hér og tekið vinnuna með. Ég hefði síður viljað vera alveg ein, en þau hafa verið ýmisleg púslin og við líka verið með yndislegar konur til að passa. Þetta hefur þó gengið ótrúlega vel.“

Dóttirin var nýfædd þegar Marta Nordal bauð Jóhönnu aðalhlutverkið, voðakvendið Velmu, í uppfærslu hennar á Chicago.

„Ég áttaði mig strax á því að þetta gæti orðið svolítið flókið. En ég er þekkt fyrir að vera pínu klikkuð þegar kemur að svona löguðu og hugsa bara: „Við látum þetta ganga.“ En ég fékk góðan stuðning og maðurinn minn var til í að koma með mér. Þannig hefur þetta gengið þó það sé svolítið kreisí að gera þetta.“


„Ég áttaði mig strax á því að þetta gæti orðið svolítið flókið. En ég er þekkt fyrir að vera pínu klikkuð þegar kemur að svona löguðu og hugsa bara: „Við látum þetta ganga.“


Aðspurð viðurkennir Jóhanna að áskorunin við að taka að sér svo stórt hlutverk stuttu eftir barneign sé falin í fleiru en að finna pössun.

„Maður er pínu viðkvæmur svona með lítið barn. En mig langaði ótrúlega til að prófa, enda virkilega djúsí hlutverk, það má eiginlega segja að þetta sé draumahlutverk. Þetta er verk sem flestir þekkja, skemmtilegur karakter og kastið er frábært, vel valinn maður á hverjum stað.“

Mikilvægt að ögra sér


Jóhanna tók þátt í tónleikauppfærslu á Evitu í Hörpu árið 2019 svo hún er ekki alveg nýgræðingur í söngleikjabransanum.

„Munurinn er aftur á móti sá að þar voru allar senur sungnar svo ég gat notað söngreynslu mína. Í Chicago er mikið meira af leiknum senum sem er nýtt fyrir mér. Það var ástæðan fyrir því að mig langaði að taka þetta að mér, sem listamaður verður maður sífellt að ögra sér til að stækka og þarna sá ég tækifæri til þess. Þetta hefur svo sannarlega verið mikill skóli enda er ég í góðum félagsskap með reyndum leikurum.“

Jóhanna segist jafnvel vilja leika meira í framtíðinni.

„Það væri gaman, þó ég myndi kannski vilja sleppa því að dröslast svona til Akureyrar en ef mér byðist eitthvað í bænum hefði ég áhuga á því – þetta er svona „level-up“. Ég elska auðvitað að dansa og syngja og það er mikið dansað í þessari sýningu og við með frábæra dansara.“

Jóhanna Guðrún er nánast óþekkjanleg þegar komin í gervi Velmu. Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Hinn breski Lee Proud er danshöfundur sýningarinnar en þau Jóhanna störfuðu einnig saman í Evitu.

„Ég vissi því alveg að hverju ég gekk þar og að við myndum smella saman. Hann er mjög kröfuharður en ég hef dansað helling og er ekki hrædd við það.

Maður verður bara að taka ákvörðun um það hvort maður ætli að gera hlutina og treysti sjálfum sér í það. En ég viðurkenni að þetta er krefjandi verkefni fyrir mig þótt ég sé með alla mína reynslu.“

Ósofin á æfingar

Þegar æfingaferlið hófst var dóttirin hálfs árs gömul og er enn á brjósti.

„Maður var alveg að fara ósofinn á æfingar eins og bara er þegar maður er með lítil börn. En ég held ég sé bara ekki týpan til að vera heima að baka. Mig dreymir um að vera þannig en ég bara er það ekki,“ segir Jóhanna og rifjar upp þegar hún var með soninn nýfæddan árið 2019.


„Maður var alveg að fara ósofinn á æfingar eins og bara er þegar maður er með lítil börn. En ég held ég sé bara ekki týpan til að vera heima að baka."


„Ég var þá að skutla eldri dótturinni í barnaafmæli með hann líka í bílnum og svo á leið beint á æfingu, þegar ég keyri fram hjá konu sem var á leið í sama afmæli með barnavagn og eldra barn á röltinu. Þetta var svo notalegt að sjá og ég sem var að verða of sein á æfingu með bæði börnin í bílnum á algjörum hlaupum, hugsaði með mér: Af hverju er ég ekki svona?“ segir hún og hlær.


Þakklát foreldrum sínum

Undanfarin ár hafa sannarlega verið viðburðarík í einkalífi Jóhönnu Guðrúnar en á sjö árum hefur hún eignast börnin sín þrjú, skilið við fyrri barnsföður sinn og tekið upp samband við þann síðari.

„Ég mæli ekkert með því að gera þetta svona hratt en ég er líka ótrúlega heppin. Mamma mín og pabbi eiga stóran þátt í því að ferill minn hefur verið eins og hann er.

Þegar ég hef verið að koma fram hafa þau tekið börnin sem líður eins og heima hjá sér þar. Ég hefði aldrei viljað að börnin mín liðu fyrir það sem ég geri. Ég hef alltaf þakkað foreldrum mínum fyrir þetta.

Maður sér ýmislegt betur þegar maður sjálfur eignast börn, en þau voru góð í að spotta hæfileika okkar systkina og mamma sá strax tónlistina í mér og studdi mig í því.“


„Ég mæli ekkert með því að gera þetta svona hratt en ég er líka ótrúlega heppin."


Foreldrar Jóhönnu Guðrúnar hafa sannarlega verið henni stoð og stytta, allt frá því ferill hennar hófst á barnsaldri.

„Ég á tvo eldri bræður sem eru geggjaðir. Það er þó enginn nema ég í þessum bransa í fjölskyldunni. Ég er kannski svolítið skrítin. Þeir eru í allt öðrum geirum en framúrskarandi á sínum sviðum.“


Var aldrei kölluð frek

Jóhanna segist hafa verið ákveðið barn en verið kennt að fara vel með þann eiginleika.

„Ég var aldrei kölluð frek enda ekki gott að segja litlum stelpum að þær séu frekar heldur betra að kenna þeim hvernig maður fer með það að vera ákveðinn. Ég hef fengið gott veganesti, gott heimili, öryggi og ást og umhyggju. Ef ég hefði lent í áföllum í æsku væri ég líklega að díla við meiri kvíða og slíkt.

Þó að ég eigi auðvitað mína slæmu daga og það þyrmi yfir mig. Sem mamma er maður líka alltaf með þetta mammviskubit, alltaf að reyna að gera betur og að gagnrýna sjálfan sig. Þannig erum við flestar mömmurnar held ég.“


„Ég var aldrei kölluð frek enda ekki gott að segja litlum stelpum að þær séu frekar heldur betra að kenna þeim hvernig maður fer með það að vera ákveðinn."


Aldrei farið út á lífið


Jóhanna viðurkennir að hún hafi þurft umhugsunarfrest til að ákveða að leggja í þetta verkefni, Chicago, enda tæki það tíma frá börnunum.

„Maður verður auðvitað þreyttur með lítið barn og á lítið eftir um helgar. En ég myndi aldrei bóka mig í neitt annað en verkefni tengd söngnum. Þá fer ég bara og syng, það er bara inn-og-út missjón,“ segir hún og jánkar því að lítið sé um félagslíf utan vinnu.

„Það er allt í lagi, maður getur ekki fengið allt og fórnað engu. Ég er ótrúlega heimakær, finnst gaman að halda matarboð eða fara í matarboð og á kaffihús með vinkonum mínum en ég hef aldrei farið út á lífið á ævinni og aldrei drukkið áfengi.“


„Ég er ótrúlega heimakær, finnst gaman að halda matarboð eða fara í matarboð og á kaffihús með vinkonum mínum en ég hef aldrei farið út á lífið á ævinni og aldrei drukkið áfengi.“


Spurð út í þá ákvörðun að snerta ekki áfengi segir hún það í raun aldrei hafa komið til greina.

„Ég var mikið erlendis á plötusamningi á yngri árum og byrjaði aldrei að drekka. Ég vissi að ég myndi hafa nóg á minni könnu og það væri óþarfi að fara að taka einhverja áhættu líka með áfengi. Ég hef ekkert á móti því að fólk geri hvað sem það vill í þessum efnum,“ bætir hún við sem varnagla.

Hún segist hlýða á sína innri rödd.

„Mér hefur oft liðið sem það sé ákveðin stýring í gangi og þá bara hlustar maður á hana.“

Jóhanna Guðrún segist hafa upplifað það sem árás á sitt persónulega rými þegar fjölmiðlar birtu fréttir um að hún væri barnshafandi að henni óforspurðri. Mynd/Saga Sig

Fjölmiðlar fóru yfir línuna


Einkalíf Jóhönnu Guðrúnar var áberandi í fjölmiðlum árið 2021 þegar hún skildi við eiginmann sinn og barnsföður og hóf nokkru síðar nýtt samband. Þegar hún svo varð barnshafandi snemma í því sambandi birtu miðlar fréttir um það án þess þó að hafa samband við hana til að fá fréttina staðfesta.

„Það sem mér fannst mjög ljótt var að þetta voru mjög persónuleg mál á mjög viðkvæmum tíma í mínu lífi og það var enginn sem hringdi í mig og spurði mig út í þetta. Ég var sjálf ekki búin að tilkynna neins staðar á netinu að ég væri ófrísk.

Ég var ekki búin að segja dóttur minni, enda vildi ég bíða fram yfir 20 vikna sónarinn til að ganga úr skugga um að allt væri með felldu. Ég gat ekki hugsað mér að segja henni fyrr en ég vissi það. Maður veit aldrei.“


„Það sem mér fannst mjög ljótt var að þetta voru mjög persónuleg mál á mjög viðkvæmum tíma í mínu lífi og það var enginn sem hringdi í mig og spurði mig út í þetta."


Sú bið styttist skyndilega þegar Jóhanna sá fréttir um sjálfa sig og þurfti að segja þá sex ára dóttur sinni það símleiðis að hún ætti von á systkini, svo hún heyrði það ekki annars staðar frá.

„Þarna var valdið tekið úr höndum mér og mér fannst farið algjörlega yfir línuna og ráðist inn í mitt persónulega rými. Það hefði verið það minnsta að ég hefði fengið að staðfesta þetta.

Ég veit ekki hvernig blaðamenn fengu þetta staðfest, kannski spurðu þeir einhvern úti í bæ, en mér er alveg sama á meðan þau spurðu ekki mig, sem fréttin fjallaði um.

Ég veit að þetta er ekkert einsdæmi þegar kemur að óviðeigandi greinum en þetta var það versta sem ég hafði lent í – þótt ég hafi lent í ýmsu í þessum efnum. Þetta fannst mér nýjar lægðir og vona að þetta sé ekki það sem koma skal á Íslandi. Ég kærði mig ekki um að þetta færi í fjölmiðla og hafði því sjálf ekkert sett á samfélagsmiðla.“


„Ég veit að þetta er ekkert einsdæmi þegar kemur að óviðeigandi greinum en þetta var það versta sem ég hafði lent í – þótt ég hafi lent í ýmsu í þessum efnum."


Til samanburðar nefnir Jóhanna að þegar hún gekk með son sinn árið 2019 hafi hún ekki sett neitt um það á samfélagsmiðla fyrr en hún var komin rúmar 30 vikur á leið.

„Ég veit alveg að ef ég set eitthvað á Facebook eða Instagram þá ratar það í fjölmiðla en þá var það mitt að stjórna því.“

Jóhanna segist hlusta á sína innri rödd og oft upplifa ákveðna stýringu, þannig hafi það verið þegar hún hitti sambýlismann sinn og barnsföður, Ólaf, eftir margra ára aðskilnað. Mynd/Saga Sig

Fundu hvort annað á ný

Jóhanna og Ólafur tóku sem fyrr segir saman fyrir tveimur árum en það voru ekki þeirra fyrstu kynni enda höfðu þau verið par á sínum yngri árum, eða frá 2008 til 2010.

Aðspurð hvort þetta sé sönnun þess að lengi lifi í gömlum glæðum skellir Jóhanna upp úr og segir:

„Já, ætli það ekki bara. Við höfðum ekkert talað saman í öll þessi ár. Við vorum búin að fara út í lífið og gera alls konar hluti sitt í hvoru lagi en ekkert búin að mætast. Ég rakst svo á hann eftir að ég skildi. Ég upplifði það sem þessa ákveðnu stýringu, ég átti bara að hitta þennan mann.“


„Ég upplifði það sem þessa ákveðnu stýringu, ég átti bara að hitta þennan mann.“


Jóhanna segir að eftir þennan óvænta fund hafi þau tekið upp spjall og fljótt hafi verið ljóst í hvað stefndi þó svo hún hafi alls ekki verið á leið í nýtt samband, nýskilin með tvö lítil börn.

„Þetta var alls ekki planið mitt, ég ætlaði bara að skapa mér líf með börnunum mínum tveimur. Ég ætlaði að prófa það í einhver ár svo þetta var alveg u-beygja. Það var heldur ekkert planað að eignast barn svo snemma en hún er náttúrlega fullkomin og við gætum ekki verið glaðari með hana. Hún er algjört ljós í lífi allra í kring.“


„Þetta var alls ekki planið mitt, ég ætlaði bara að skapa mér líf með börnunum mínum tveimur."


Stífar æfingar á Chicago hafa staðið yfir undanfarna mánuði og viðurkennir nýbökuð móðirin að stundum hafi lítið verið um svefn. Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Spyrnti á móti nafninu

Jóhanna Guðrún flissar þegar hún er spurð út í nafn dótturinnar sem heitir í höfuðið á móður sinni. Blaðamaður bendir í þeim efnum á að slíkt þyki ekki tiltökumál þegar kemur að því að synir séu nefndir eftir föður og aldalöng hefð sé fyrir því og segist Jóhanna einmitt hafa rætt þá staðreynd við vinkonur sínar á sínum tíma.

„Ég spyrnti hressilega á móti þessari hugmynd í svolítinn tíma,“ segir hún, en hugmyndin kom frá barnsföðurnum.

„Ég hafði sagt að hann mætti ráða nafninu enda heita eldri börnin mín í höfuðið á foreldrum mínum. Þegar hann svo kom með þessa hugmynd var ég ekki alveg á því. Hann benti þá á að það þýddi ekki að segja að hann mætti ráða og segja svo bara nei,“ segir hún og hlær.


„Ég hafði sagt að hann mætti ráða nafninu enda heita eldri börnin mín í höfuðið á foreldrum mínum. Þegar hann svo kom með þessa hugmynd var ég ekki alveg á því."


„Ég ákvað því að segja bara ókei. Mér fannst líka mjög fallegt að hann vildi þetta – en þetta var mikið diskú­terað og mér fannst þetta svolítið erfitt. Dóttir mín fékk að tilkynna nafnið í skírninni og hún þurfti alveg að venjast því að segja þetta nafn. Það voru allir pínu hissa,“ segir hún og hlær.

„Bræður mínir héldu að dóttir mín væri að grínast. En það eru allir glaðir með nafnið enda heiti ég í höfuðið á tveimur ömmum mínum,“ segir hún og viðurkennir að það hafi tekið tíma að venjast því að kalla dótturina nafninu.

„Ég var sífellt að segja að ég hefði ekki valið nafnið.“

Jóhanna Guðrún er vön umtali en segist þó ekki skilja slúður, þegar fólk sitji og tali um líf annarra, sérstaklega þegar það sé að ganga í gegnum erfiðleika. Mynd/Saga Sig

Skil ekki þessa slúðurmenningu

Ellefu ár liðu frá því að upp úr slitnaði milli Jóhönnu og Ólafs og þar til þau náðu saman á ný, en ætli hann hafi beðið þess að hún rataði aftur til hans?

„Ég veit það ekki, en það er sagan sem ég segi sjálfri mér,“ segir hún og skellir upp úr.

Aðspurð hvernig gangi að púsla saman nýrri fjölskyldu segir hún það ganga vel.

„En maður er oft þreyttur og bugaður á því og ég lenti í því síðasta laugardag að vera grenjandi heima hjá mér af þreytu. Það er ekkert fullkomið og þetta hefur auðvitað tekið á en það eru allir að gera sitt besta. Ég get ekki kvartað. Maður þarf líka að beita ákveðnu æðruleysi í lífinu, það eru allir heilbrigðir og það líður öllum vel.“

Sögusagnir eiga það til að kvikna þegar fólk efnir til nýs sambands stuttu eftir skilnað og fór Jóhanna Guðrún ekkert varhluta af því.

„Ég vissi alveg að fólk myndi leggja saman tvo og tvo og fá út einhverja fáránlega tölu. Auðvitað er það ömurlegt, enda var þetta ekki þannig og það kemur heldur ekki neinum við.

Ég skil ekki þessa slúðurmenningu, að sitja og tala um líf annarra, sérstaklega þegar fólk er að ganga í gegnum erfiðleika. Það var mjög erfitt að fara í gegnum og ég ætla ekkert að ljúga öðru. Það er erfitt að vita til þess að þessa vikuna sé maður það sem fólk er að tala um.“


„Ég vissi alveg að fólk myndi leggja saman tvo og tvo og fá út einhverja fáránlega tölu. Auðvitað er það ömurlegt, enda var þetta ekki þannig og það kemur heldur ekki neinum við."


En Jóhanna Guðrún er hugdjörf sem fyrr og með skýran fókus. Lífið snýst um fjölskylduna og sönginn en auk þess að fara með aðalhlutverkið í söngleiknum Chicago er hún með tvær stúdíóplötur í vinnslu, gamlar íslenskar perlur og popp.

Eftir u-beygjuna liggur leiðin beint áfram og upp.

Athugasemdir