„Þetta var ekki heimili, þetta var fangelsi – einangrun. Hann reyndi að fá mig til þess að trúa því að ég ætti svona meðferð skilið og ég gat ekki höndlað þetta meira svo ég tók börnin og fór í Kvennaatkvarfið.“ 

Svona lýsir rússnesk kona ofbeldi sem hún varð fyrir þegar hún var í sambúð með íslenskum manni hér á landi. Konan starfaði sem sálfræðingur í Rússlandi en kynntist íslenskum manni og fluttist með honum hingað til lands. Hún segir sögu sína í einu af fimm myndböndum sem gefin voru út í dag sem liður í vitundarvakningu um heimilisofbeldi, en átakið Þú átt von hófst í dag. 

„Svo varð ég ólétt. Það breytti lífi mínu mikið, ég tapaði frelsinu mínu. Hann bauð mörgum vinum heim, vinum sínum og það voru mörg partí. Hann tapaði sér oft,“ segir konan sem fór á endanum frá manninum og leitaði í Kvennaatkvarfið. 

„Þegar þú ert í þessari stöðu getur þú ekki metið styrkina þína. Við höfum réttindi, þó sumir reyni að fá okkur til að trúa því að við höfum það ekki. Það er alltaf von um að verða þú sjálf aftur,“ segir konan að lokum. 

Von um betra líf 

„Þó að leiðin út sé ekki dans á rósum er von um betra líf hinu megin,“ sagði Fríða Rós Valdimarsdóttir, verkefnastýra hjá Jafnréttisstofu, þegar ráðstefna um heimilisofbeldi var sett í dag. Sem fyrr segir hófst Þú átt von, vitundarvakning um heimilisofbeldi í dag. 

Í tilefni þess voru fimm myndbönd frumsýnd sem endurspegla ólíkar hliðar heimilisofbeldis. Í fjórum þeirra segja raunverulegir þolendur sögu sína, þar á meðal barn, fötluð kona og kona af erlendum uppruna en í því fimmta er sjóninni beint að gerendum með raunverulegum tilvitnunum úr rannsóknunum.

„Þessir þolendur eru komnir mislangt í sínu bataferli og þessi umfjöllun gæti rifið upp ákveðin sár. Þær eiga allar þakkir skilið að deila sínum sögum og gefa öðrum von,“ sagði Fríða Rós. 

Tæplega 900 tilkynningar um heimilisofbeldi á síðasta ári

Greint var frá því í fréttapósti frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun að aðstoð lögreglu hefði verið óskað í nótt vegna heimilisofbeldis í Hafnarfirði. Er komið var á vettvang hafði gerandi haft sig á brott. Ekki bárust frekari upplýsingar um málið.

Á síðasta ári bárust lögreglu 890 tilkynningar um heimilisofbeldi, en rannsóknir sýna að börn séu vettvangi í tveimur af hverjum þremur útköllum lögreglu vegna heimilisofbeldis. Í einu myndbandinu lýsir ung stúlka upplifun sinni af heimilisofbeldi. 

„Mér finnst ég vera dálítið sterk. Ég man að ég var alltaf dálítið reið en fattaði ekki af hverju. Ég átti herbergi við hliðin á mömmu og pabba og alltaf á næturnar heyrði ég pabba minn alltaf vera að öskra og mömmu mína segja honum að hætta. Ég sá alltaf nýja marbletti á mömmu. Ef þér finnst erfitt að fara heim og heldur þig alltaf inni í herbergi þá er það ekki eðlilegt,“ segir stúlkan í myndbandinu sem má finna hér að neðan.

Vissi innst inni að eitthvað var að

„Við kynntumst á skemmtistað þegar ég var átján ára. Ég var svo heilluð af því að einhver væri svona rosalega hrifinn af mér. Mjög stuttu eftir að við byrjuðum saman fann ég hvað hann var afbrýðisamur og ég þurfti alltaf að vera að sanna fyrir honum að ég væri hans,“ lýsir önnur kona ofbeldi sem hún varð fyrir í sambandi með manni, sem hún hóf ung.  

„Ég vissi svona inni í mér á einhverjum skrítnum stað að þetta væri ekki eins og þetta ætti að vera og hann sagði mér að þetta væri bara það sem fylgdi fullorðinsárunum. Svo verð ég ólétt ári eftir að við byrjum að búa saman og þá gerðist eitthvað sem ég skildi aldrei hvað var og þá byrjaði hann að berja mig.“

Árið 2017 leituðu meira en þúsund konur aðstoðar vegna ofbeldis maka í sambandi. Vitundarvakningin Þú átt von er á vegum Jafnréttisstofu og er markmiðið að benda á fjölbreyttan stuðning og aðstoð sem er í boði. Þá eru þolendur hvattir til að hringja í neyðarlínuna, 112 til þess að finna það úrræði sem hentar best.

Bar ekki virðingu fyrir líkama sínum eftir ofbeldið

Í fjórða myndbandinu lýsir fötluð kona ofbeldi sem hún varð ung fyrir og hvaða áhrif það hefur á hana í dag. 

„Eftir ofbeldið hef ég dílað við sjálfskaðandi hegðun, svo byrjaði ég að fara að selja mig og fara illa með mig fyrir peninga því ég bar ekki virðingu fyrir líkama mínum eftir ofbeldið sem ég varð fyrir. Mér fannst ég vara skítug, ógeðsleg og ljót.“

Fatlaðar konur verða oftar fyrir ofbeldi en aðrar konur. Fyrstu 8 mánuði ársins leituðu 57 konur með fötlun eða skerðingu til Kvennaathvarfsins

Ráðstefna um samvinnu í heimilisofbeldi fer fram á Icelandair hótel Natura í dag og er ráðstefnan ætluð fagfólki sem vinnur með ofbeldi í nánum sambödnum og almenningi sem vill láta sig málið varða.

Þar verða kynnta nýjar rannsóknir um ofbeldi í nánum samböndum á Íslandi og fjallað um rannsókn á upplifun kvenna af sáttarmeðferð sýslumanns við skilnað, heimilisofbeldi gagnvart fötluðu fólki, reynslu af því að leita sér hjálpar og ná bata eftir ofbeldissamband auk þess sem skoðuð verður staða erlendra kvenna sem hafa upplifað heimilisofbeldi.