Tyrk­neski hakkara­hópurinn Anka Nefer­ler Tim er sagður bera á­byrgð á tölvu­á­rásum gegn Isavia í um­fjöllun tyrk­neska miðilsins Yeni akit en RÚVgreindi fyrst frá. Í frétt tyrkneska miðilsins kemur fram að hópurinn hafi viljað hefna sín fyrir mótt­tökur tyrk­neska karla­lands­liðsins í fót­bolta og hið svo­kallaða þvotta­bursta­mál.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá hrundi síða Isavia síð­degis í dag í rúma tvo tíma og hefur verið hæg notkunar það sem af er degi. Var ráðist á síðuna með svo­kallaðri ddos árás þar sem fram­kölluð er um­ferð á vef­síðuna með þúsundum sýndar­not­enda.

Guð­jón Helga­son, upp­lýsinga­full­trúi, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið að hann muni ekki eftir því að Isavia hafi lent í við­líka tölvu­á­rás áður. „Við vorum ein­mitt að ræða þetta áðan og sá kollegi sem ég talaði við mundi ekki eftir því að slíkt hefði gerst og ég hef ekki heyrt af slíku síðan ég byrjaði.“

Sjá má á Twitter síðu hakkara­hópsins að fjallað er um vef­síðu Isavia og á­rásina gegn henni. Þar eru skjá­skot af vefnum þar sem sjá má að hann liggur niðri en tækni­menn Isavia hafa unnið að því að verjast við­komandi á­rásum á síðuna í dag.

Samtökin hreykja sér af árásunum á Twitter.
Fréttablaðið/Skjáskot