Tyrk­neski hakkarahópurinn Anka Neferler Tim segist bera ábyrgð á tölvuárás sem átti sér stað fyrr í dag á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ. Á Twitter-síðu samtakanna má sjá yfirlýsingu frá þeim þar sem segir að þau hafi hindrað aðgang að síðunni. Það eru sömu samtök og réðust á heimasíðu Isavia í gær.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir í samtali við Fréttablaðið að árásin sé álíka þeim og átti sér stað í gær á heimasíðu Isavia og að Advania vinni að málinu. Hún segir að um sé að ræða svokallaða d-dos árás sem lýsir sér í umferðarteppu á síðinni og að síðan hafi legið niðri í um hálftíma. Hún telur ekki að árásin muni hafa frekari áhrif.

„Advania er að vinna að málinu fyrir okkur og greinir vandann og reynir að koma í veg fyrir frekari árásir,” segir Klara.

Hún segir að höfuðáhersla sé á að vernda þeirra gögn.

Yfirlýsing tyrknesku samtakanna má sjá hér að neðan.

Stuðningsmenn tyrkneska landsliðsins móðguðust mjög þegar belgískur ferðamaður hélt uppþvottabursta að tyrkneska liðinu við komu þess til landsins í gær. Þá voru liðsmenn einnig ósáttir við langa bið á Keflavíkurflugvelli og að þeir hafi verið látnir sæta öryggisleit. Tyrkneska landsliðið er hér á Íslandi og mun keppa við það íslenska í kvöld á Laugardalsvelli í undankeppni EM. Tyrkir höfðu beðið um flýtimeðferð á flugvellinum en eins og fram hefur komið tókst utan­ríkis­ráðu­neytinu ekki að verða við óskum tyrk­neska sendi­ráðsins í Ósló um flýti­með­ferð til handa tyrk­neska liðinu vegna skamms fyrir­vara.