Tyrk­neska þingið hefur sam­þykkt lög sem heimila stjórn­völdum að senda her­menn til Líbýu til að styðja al­þjóð­lega viður­kenndu ríkis­stjórnina í bar­áttu við her­sveitir Khalifa Haftar, sem reynir að steypa ríkis­stjórninni af stóli. Átök hafa geysað í landinu síðan einræðisherrann Muammar Gaddafi var drepinn árið 2011.

Í frétt The Guar­dian segir að lögin hafi verið sam­þykkt í skugga þess að af­skipti Tyrkja af á­tökunum í landinu gætu valdið versnandi á­tökum í landinu. Þau eru þó talin vera að mestu leyti táknræn.

„Við erum til­búin. Her­sveitir okkar og varnar­mála­ráðu­neytið eru reiðu­búin,“ er haft eftir Fuat Oktay. Hann segir hins vegar að kosningin um heimildina til að senda her­menn til Líbýu séu pólitísk skila­boð til Haftar og ætluð til þess að fá hann til að draga sig til baka.

Egypsk stjórnvöld gagnrýna ákvörðunina

Ákvörðunin er einnig sögð vera til­raun Tyrkja til að sýna mátt sinn gagnvart Egypta­landi og Sam­einuðu arabísku fursta­dæmunum, en þau ríki styðja Khalifa Haftar í á­tökunum.

Ásamt Egyptalandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum er Jórdanía talin vera meðal þeirra landa sem styðja Haftar í valda­bar­áttunni í landinu. Einnig hefur Rúss­land verið sakað um að senda mála­liða til Líbýu til að berjast við hlið her­sveita Haftar.

Sam­einuðu þjóðirnar hafa aftur á móti sagt að ríkis­stjórnin í Trípólí, undir for­ystu Fayez al-Sarra­j séu rétt­mæt stjórn­völd.

Á­tökin í landinu má rekja til þess að fyrr­verandi ein­ræðis­herran Muammar Gadda­fi var drepin í kjöl­far arabíska vorsins svo­kallaða. Eftir að Gadda­fi var drepinn hafa stríðandi fylkingar barist um yfir­ráð yfir landinu.

Egypsk stjórnvöld hafa gagn­rýnt á­kvörðun Tyrkja og segja hana gera á­standið í landinu verra, og ógna stöðug­leika í þeim héruðum sem liggja við Mið­jarðar­hafs­strönd landsins.