Tyrkneska þingið hefur samþykkt lög sem heimila stjórnvöldum að senda hermenn til Líbýu til að styðja alþjóðlega viðurkenndu ríkisstjórnina í baráttu við hersveitir Khalifa Haftar, sem reynir að steypa ríkisstjórninni af stóli. Átök hafa geysað í landinu síðan einræðisherrann Muammar Gaddafi var drepinn árið 2011.
Í frétt The Guardian segir að lögin hafi verið samþykkt í skugga þess að afskipti Tyrkja af átökunum í landinu gætu valdið versnandi átökum í landinu. Þau eru þó talin vera að mestu leyti táknræn.
„Við erum tilbúin. Hersveitir okkar og varnarmálaráðuneytið eru reiðubúin,“ er haft eftir Fuat Oktay. Hann segir hins vegar að kosningin um heimildina til að senda hermenn til Líbýu séu pólitísk skilaboð til Haftar og ætluð til þess að fá hann til að draga sig til baka.
Egypsk stjórnvöld gagnrýna ákvörðunina
Ákvörðunin er einnig sögð vera tilraun Tyrkja til að sýna mátt sinn gagnvart Egyptalandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en þau ríki styðja Khalifa Haftar í átökunum.
Ásamt Egyptalandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum er Jórdanía talin vera meðal þeirra landa sem styðja Haftar í valdabaráttunni í landinu. Einnig hefur Rússland verið sakað um að senda málaliða til Líbýu til að berjast við hlið hersveita Haftar.
Sameinuðu þjóðirnar hafa aftur á móti sagt að ríkisstjórnin í Trípólí, undir forystu Fayez al-Sarraj séu réttmæt stjórnvöld.
Átökin í landinu má rekja til þess að fyrrverandi einræðisherran Muammar Gaddafi var drepin í kjölfar arabíska vorsins svokallaða. Eftir að Gaddafi var drepinn hafa stríðandi fylkingar barist um yfirráð yfir landinu.
Egypsk stjórnvöld hafa gagnrýnt ákvörðun Tyrkja og segja hana gera ástandið í landinu verra, og ógna stöðugleika í þeim héruðum sem liggja við Miðjarðarhafsströnd landsins.