Tyrkland hefur ákveðið að breyta nafni sínu og mun héðan í frá í ganga undir nafninu Türkiye hjá Sameinuðu Þjóðunum, eftir að formleg beiðni frá yfirvöldum Ankara, höfuðborg Tyrklands, var samþykkt. BBC greinir frá.
Þá verða nokkrar alþjóðlegar stofnanir beðnar um að breyta nafninu, sem er hluti af vörumerkjaherferð sem forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan hóf seint á síðasta ári.
„Türkiye er besta framsetningin og tjáningin á menningu og gildum tyrknesku þjóðarinnar,“ sagði Erdogan í desember síðastliðnum.
Sameinuðu Þjóðirnar breyttu nafninu um leið og beiðnin barst þeim fyrr í vikunni.
Flestir Tyrkir þekkja land sitt nú þegar sem Türkiye. Hins vegar hefur enski rithátturinn „Turkey“ náð talsverðri fótfestu víða um heim, jafnvel meðal Tyrkja sjálfra.
Ríkisútvarp Tyrklands, TRT, brást skjótt við og breytti nafninu um leið og tilkynningin barst á síðasta ári. Talsmenn stofnunarinnar segja að ein af ástæðunum fyrir þessari ímyndarbreytingu sé tengingin við fuglinn, sem jafnan er tengdur við jólin, nýtt ár eða Þakkargjörðarhátíðina. Þá bentu þeir einnig á að samkvæmt orðabókinni Cambridge English Dictionary, þá er orðið „turkey“ skilgreint meðal annars sem „eitthvað sem mistekst hrapallega“ eða „heimsk eða kjánaleg manneskja.“
Í janúar síðastliðnum var herferð ferðaþjónustu Tyrklands hleypt af stokkunum með slagorðinu: „Halló Türkiye“ og héðan í frá munu allar útfluttar vörur bera merkinguna „Made in Türkiye.“
Þessi breyting hefur hlotið misjöfn viðbrögð meðal netverja. Á meðan embættismenn styðja hana heilshugar segja aðrir að þetta sé áhrifalaus afvegaleiðing af hálfu forseta, þar sem hann sé að undirbúa sig fyrir kosningar á næsta ári, í miðri efnahagskreppu.
Ef litið er til annarra landa má sjá að það er ekki óalgengt að lönd breyti nöfnunum sínum. Árið 2020 hætti Holland að notast við nafnið „Holland“ og notar nú nafnið The Netherlands, sem var hluti af ímyndarbreytingu landsins. Þar á undan hafði Makedónía breytt nafni sínu í Norður-Makedónía vegna pólitísks ágreinings við Grikkland. Þá breytti Svasíland nafni sínu í Eswatíní árið 2018.
Ef litið er lengra aftur í söguna má sjá að Íran var áður Persía, Síam er nú Taíland og nafninu Ródesía var breytt í Simbabve.